Fyrsti leikur tímabilsins í meistaraflokki kvenna!

Fyrsti leikur tímabilsins í meistaraflokki kvenna!

Laura og Bríet takast á í leik liðanna á síðasta tímabili. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Keppnistímabilið opnaði formlega í gærkvöldi þegar Íslandsmeistarar Fjölnis sóttu nágranna sína í SR heim í Laugardalinn. Nokkur spenna var fyrir leikinn þar sem SR-ingar höfðu fengið til liðs við sig 4 nýja leikmenn sem vitað var að styrktu ungt lið SR verulega. Fyrsti leikhluti einkenndist af þreifingum, það var eins og liðin væru að finna sig á svellinu bíða eftir viðbrögðum andstæðingsins. Lotan kláraðist án marka en Fjölnir átti heldur fleiri skot á markið 8 skot á mark SR gegn 5 skotum SRinga.

Önnur lota var stór-skemmtileg á að horfa og dauðafæri á báða bóga. Þetta var eiginlega svona markvörslu veisla. En markmenn liðanna Andrea Bachmann Jóhannesdóttir (SR) og Karitas Halldórsdóttir (FJÖ) sýndu frábæra takta í markinu og enn var markalaust eftir aðra lotu. Fjölnis konur voru þó aðgangsharðari við mark SR og ef ekki hefði verið fyrir góða markvörslu Andreu hefði pökkurinn sungið í netinu oftar en einu sinni. SR átti líka sín dauðafæri og Fjölnis konur geta þakkað Karitas að SR tókst ekki að skora. Skotin á mark í þessari lotu voru 22 skot Fjölnis gegn 5 frá SR.

Það voru einungis liðnar 59 sekúndur af þriðja leikhluta þegar Sigrún Agatha Árnadóttir skoraði fyrir Fjölni eftir stoðsendingu frá Laura-Ann Murphy. Íslandsmeistararnir voru búnir að brjóta ísinn og finna leið í netmöskvana hjá SR, sem voru fljótar að bregðast við og beita sínum skyndi sóknum. þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar fékk Saga Blöndal (SR) 2 mínútna brottvísun og í yfirtölu 5 á móti 4 náði Kolbrún Garðarsdóttir að bæta við marki fyrir Fjölni eftir stoðsendingar frá Berglindi Leifsdóttur, Hilmu Bergsdóttur. 0 – 2 fyrir meistarlið Fjölnis.

En þetta var sko ekki búið. Spennan og dramatíkin hélt áfram. og þegar rúmar 2 mínútur og tuttugu sekúndur voru eftir af leiktímanum tók þjálfari SR Andreu markmann útaf og bætti við 6 manninum í sóknina til þess að reyna að þrýsta inn marki. Þessar síðustu 140 sekúndur leiksins voru hádramatískar. Í þrígang hið minnsta vann Fjölnir pökkinn og reyndi skot á autt markið hinumegin, rétt framhjá beggja megin og stangarskot. SR-ingar reyndu hvað þeir gátu að þenja markmöskva Fjölnis og áttu nokkur dauðafæri á þessum sekúndum en Karitas hélt markinu hreinu. Þvílík skemmtun, háspenna og dramatík!!

Ljóst er að lið SR hefur styrkt sig verulega og liðið er líklegt til þess að stimpla sig vel inn og ná stigum í vetur. Þetta eru frábærar frétti fyrir íshokkíáhugafólk því ljóst er að kvennadeildin verður jöfn og spennandi í allan vetur.

Leikurinn í tölum hér.

Úrslitaþjónusta ÍHÍ hér.

Fréttir af ihi.is