MFL Kvenna: SA og Fjölnir mættust í kaflaskiptum leik

MFL Kvenna: SA og Fjölnir mættust í kaflaskiptum leik

Silvía og Sólrún fagna marki þeirrar fyrrnefndu. Ljósmynd Bjarni Helgason

Kvennalið Skautafélags Akureyrar og Fjölnis riðu á vaðið og hófu leik, þann fyrri af tveimur leikjum dagsins, kl.16:45 í dag.  Nokkur eftirvænting var fyrir þennan leik enda mættust þessi lið síðast í Úrslitakeppni Hertz-deildar kvenna í fyrra.  Fyrir þennan leik hafði Fjölnir spilað við kvennalið Skautafélags Reykjavíkur og vann þann leik 0 -2 og því var þetta fyrsti leikur SA á þessu tímabili.

Fyrsti leikhluti var að stórum hluta til leikinn á varnarsvæði Skautafélags Akureyrar þar sem Fjölnis-konur náðu á löngum köflum góðu spili og nokkrum góðum færum sem þrátt fyrir allt náði pökkurinn ekki inn í markið.  Þó svo að Fjölnis-konur hafi fengið tvær tilraunir á yfirtölu-spili (“Power Play”) snemma í fyrstu lotu en þær norðlensku stóðu þær árásir vel af sér.   Engin mörk voru skoruð í fyrsta leikhluta og var því staðan 0-0 þegar liðin héldu til búningsklefa.

Leikurinn snérist nokkuð við í öðrum leikhluta þar sem SA-konur náðu sínum þekkta takti og fóru að spila eins og oft hefur sést til þeirra hér áður.  Innkoma Herborgar Geirsdóttur aftur inn í lið SA hafði bersýnilega góð áhrif á sóknartilburði liðsins þegar hún gaf á Silvíu Björgvinsdóttur sem skaut pekkinum viðstöðulaust og inn í mark Fjölnis þegar rétt um 10 sekúndur lifðu af refsingu Fjölnis.  Þrátt fyrir aukinn sóknarþunga hjá báðum liðum urðu mörkin ekki fleiri í öðrum leikhluta og staðan því 0-1 þegar þeim leikhluta lauk.

Í upphafi þriðja leilhluta var ljóst að bæði lið ætluðu að skilja allt eftir á ísnum og reyna að sigla sigri heim.  Þrátt fyrir að SA hafi fengið tvær tilraunir á yfirtölunni í upphafi leikhlutans, náðu þær ekki að nýta þær sem skildi.  Þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður var mikil sókn að marki Fjölnis, þar sem Karítas Halldórsdóttir stóð í ströngu, og eftir léttann darraðardans við markið náði Herborg Geirsdóttir að koma pekkinum í mark Fjölnis.  Silvía Björgvinsdóttir og Amanda Bjarnadóttir voru þar til aðstoðar.  En þegar rétt tæplega þrjár mínútur voru eftir af leiknum náðu Fjölnis-konur valdi á pekkingum í hlutlausa svæðinu, snéru sér í hvelli við og sóttu að marki SA.  Hilma Bergsdóttir fylgdi vel eftir skoti Teresu Snorradóttur og skilaði pekkinum í mark SA.  Við þetta mark jókst heldur sóknarþungi Fjölnis-kvenna en allt kom fyrir ekki og lokatölur leiksins urðu 1-2 fyrir SA.

Leiklýsingu er hægt að lesa hér

Upptöku af beinu streymi er hægt að horfa á hér að neðan.

Fréttir af ihi.is