Hafnfirðingar runnu á svellinu í fyrsta leik!

Hafnfirðingar runnu á svellinu í fyrsta leik!

Birt: 04.10.2024Flokkar: Fréttir
Andri skýtur

Skautafélag Hafnarfjarðar lék sinn fyrsta leik í Topp deildinni í íshokkí í kvöld. Félagið var stofnað snemma sumars og síðan hefur hópur innan félagsins verið að undirbúa komu þeirra inn í Topp deildina í íshokkí.

Þetta voru fyrir margra hluta sakir merkileg tímamót. Í fyrsta sinn síðan Íshokkísambandið var stofnað sem sjálfstætt sérsamband innan vébanda ÍSÍ árið 2004, er skráð til keppni félagslið sem ekki tilheyrir annaðhvort Akureyri eða Reykjavík. Lengi hefur verið talsvert af Hafnfirðingum innan Reykjavíkurfélaganna og þaðan má segja að kjarninn á bakvið félagið sé sprottinn. Hafnarfjarðarliðið er skipað nokkuð öflugum hóp leikmanna sem margir hverjir voru búnir að setja skautana innst í geymsluna en hafa dregið þá fram að nýju sem er ánægjulegt fyrir hreyfinguna í heild. Einnig eru í liðinu nokkrir yngri menn, skemmtileg blanda.

Það var gaman að sjá fyrirliða Hafnarfjarðarliðsins Heiðar Örn Krsitveigarson færa formanni íshokkídeildar Fjölnis blómvönd í upphafi leiks sem þakklætisvott fyrir aðstoðina við að koma liðinu á legg. En fyrir góðvild og hjálp Fjölnisfólks tókst að útvega Hafnarfjarðarliðinu æfingaaðstöðu í Egilshöll.

En snúum okkur að leik kvöldsins. Það kom fljótt í ljós að Fjölnisliðið var vel stemmt fyrir leikinn. Þegar liðnar voru tíu og hálf mínúta af fyrsta leikhluta, skoraði Hilmar Sverrisson fyrir Fjölni eftir stoðsendingar frá Viggó Hlynssyni og Andra Helgasyni. Andri Helgason bætti við öðru marki Fjölnis áður en leikhlutinn var úti en það var Falur Harðarsson sem lagði það laglega upp með stoðsendingu sinni. Staðan 2 – 0 fyrir heimaliðinu í fyrra leikhlé.

Það voru ekki liðnar nema 52 sekúndur af leikhluta tvö þegar Egill Þormóðsson skoraði fyrsta mark Skautafélags Hafnarfjarðar. Liðið var í yfirtölu þar sem Viggó Hlynsson var að taka út refsingu fyrir Fjölni. Stoðsendingar á þessu tímamóta marki áttu Ævar Arngrímsson og Alex Kostasek  en markið fer í sögubækurnar.  Á þrítugustu og annari mínútu skoraði síðan Hektor Hrólfsson þriðja mark Fjölnis eftir stoðsendingu Andra Helgasonar.

Í þriðja leikhluta hélt sókn Fjölnismanna áfram og þeir uppskáru tvö mörk til viðbótar áður en leik lauk. Emil Alengard lagði þau bæði upp en það fyrra skoraði Lindon Dupljaku og það síðara Martin Simanek. Endanleg úrslit voru 5 – 1 fyrir Fjölni.

Bæði liðin léku með erlenda markmenn. Í marki SFH stóð tékkinn Radek Haas sem fékk á sig 47 skot og varði 42 af þeim og Fjölnis megin  var lettinn Nikita Montvids sem fékk á sig 22 skot og varði 21 skot af þeim.

„Fjölnir var bara betra liðið í kvöld. Leikskipulagið þeirra gékk upp og þeir voru duglegir að pressa okkur, sagði Gauti Þormóðsson þjálfari Skautafélags Hafnarfjarðar eftir leikinn. Við eigum mikið inni og eigum mikið verk að vinna bæti hann við og kímdi nokkuð sáttur við fyrsta leik liðsins sem æfir á nóttinni þegar aðrir sofa.

Taka má undir með Gauta að liðið á örugglega nokkuð mikið inni og er sýnd veiði en ekki gefin í komandi leikjum.

Leikurinn í tölum.:

FJO-SFH 5-1 (2-0, 1-1, 2-0)

SOG 47-22

PIM 10-27

PPG 1-1

SHG 0-0

Mörk og stoðsendingar.

Fjölnir: Andri Helgason 1/2, Hilmar Sverrisson 1/0, Hektor Hrólfsson 1/0, Lindon Dupljaku 1/0, Martin Simanek 1/0 Emil Alengard 0/2 Falur Harðarsson 0/2, Viggó Hlynsson 0/1.

Skautafélag Hafnarfjarðar: Egill Þormóðsson 1/0, Ævar Arngrímsson 0/1, Alex Kostasek 0/1