Auðveldur sigur Fjölnis í fyrsta leik í úrslitum kvenna
Auðveldur sigur Fjölnis í fyrsta leik í úrslitum kvenna

Kolbrún Garðarsdóttir FJO17 og Jónína Guðbjartsdóttir SA21 í dómarakasti í þriðja leikhluta
Flestir gestir Egilshallar áttu von á spennandi leik þegar Fjölnir mætti Skautafélagi Akureyrar í fyrsta leik úrslitakeppni kvenna, sem leikinn var í Egilshöll í gærkvöldi. Fara þurfti alla leið í vítakeppni til að knýja fram úrslit í þremur af átta leikjum þessara liða í deildarkeppni vetrarins. Sú var ekki raunin í gær, heimakonur tóku öll völd á svellinu eftir um það bil tíu mínútna leik og slepptu því taki aldrei.
Í fyrsta leikhluta þegar að 14 mínútur og 25 sekúndur voru liðnar af leiknum skoraði Kolbrún Garðarsdóttir fyrsta mark Fjölnis eftir stoðsendingu frá Berglindi Leifsdóttur og Hilmu Bergsdóttur. Það var síðan 5 mínútum seinna eða á 19 mínútu og 15 sekúndu sem að Hilma Bergsdóttir skoraði annað mark Fjölnis eftir stoðsendingar frá Berglindi Leifsdóttur og Evu Hlynsdóttur. Þar við sat í fyrsta leikhluta, tvö núll fyrir Fjölnir.
Í öðrum leikhluta var örlítið meira jafnvægi á leiknum og SA sýndi oft ágæta takta og gerðu nokkrar glæsilegar atrennur að marki Fjölnis kvenna. Fjölnis konur höfðu þó yfirhöndina mestan hluta tímans og náðu þær að loka vel á norðan konur. Sóknaraðgerðir Fjönis voru markvissari og beittari, það má meðal annars sjá með því að skoða skot á mark tölfræði í leiknum í heild. Fjölnir náði 23 skotum á mark norðan kvenna á meðan að þær svöruðu fyrir sig með tólf skotum á mark Fjölnis. Í öðrum leikhluta bætti Berglind Leifsdóttir við þriðja marki Fjölnis, í þetta sinn eftir stoðsendingar frá Teresu Snorradóttur og Kolbrúnu Garðarsdóttur.
Í þriðja leikhluta hélt Fjölnir taki sínu á SA og uppskáru þær tvö mörk til viðbótar. Fyrra markið kom á 49 mínútu á 13 sekúndu þar var á ferðinni enn á ný Berglind Leifsdóttir í þetta sinn eftir stoðsendingar frá Karen Þórisdóttur og Kolbrúnu Garðarsdóttur. Lokamark leiksins kom síðan á 53 mínútu og 32 sekúndu, þar var á ferðinni Flosrún Vaka Jóhannesdóttir sem að skoraði fimmta og síðasta mark Fjölnis en liðið var þá í yfirtölu 5 leikmenn Fjölnis að leika á móti 4 leikmönnum SA.
Karítas Halldórsdóttir markvörður Fjölnis náði að halda marki sínu hreinu og varði öll 12 skot norðan kvenna. Shawlee Gaudreault markvörður SA varði svo 17 skot af þeim 22 sem Fjölnis konur náðu að skjóta á mark SA.
Fimm núll sigur Fjölnis, nokkuð stærri og öruggari heldur en reiknað var með er því staðreynd. Fjölnir er því komið eitt núll yfir í einvíginu um íslandsmeistaratitilinn. Næsti leikur verður á Akureyri á morgun fimmtudaginn 13. Mars og hefst hann klukkan 19:30.
Tölulegar upplýsingar um leikinn má finna á vef ÍHÍ með því að smella hér