Glæsilegur sigur á Spáni í fyrsta leik á HM kvenna
Glæsilegur sigur á Spáni í fyrsta leik á HM kvenna

Rósa Guðjónsdóttir hokkímamma afhendir Andreu viðurkenningu sem besti leikmaður Íslands í lok leiks.
Fyrsti leikur kvennalandsliðsins á HM þetta árið var á móti Spánverjum sem hafa hingað til haft yfirhöndina í leikjum okkar. Leikið í í bænum Bytom í Póllandi og hófst leikurinn klukkan 11:00 að okkar tíma.
Það var Sunna Björgvinsdóttir fyrirliði sem opnaði markareikning okkar með glæsilegu marki eftir undirbúning og stoðsendingar frá Friðriku Magnúsdóttur og Teresu Snorradóttur. Staðan eftir fyrsta leikhluta 1 – 0.
Það voru liðnar tæplega 8 mínútur af öðrum leikhluta þegar Spánverjar jöfnuðu og þar við sat í öðrum leikhluta. Á fertugustu og áttundu mínútu komust þær spænsku yfir þegar þær léku gegn okkur í yfirtölu. 1 – 2 fyrir Spáni. Það voru eftir tvær og hálf mínúta af leiknum þegar Jón Gíslason þjálfari tók Andreu Bachmann markvörð útaf og bætti sjötta leikmanninum í sóknina. Mínútu síðar skoraði Berglind Leifsdóttir jöfnunarmark Íslands eftir stoðsendingar frá Sögu Blöndal og Ragnhildi Kjartansdóttur. Leikurinn fór því 2 – 2 í venjulegum leiktíma og framlengja þurfti til þess að knýja fram úrslit.
Framlengingin dugði okkur ekki til að skora jafnvel þó þær spænsku hefðu misst mann í refsiboxið. Þannig að grípa þurfti til vítakeppni. Þar gerði Andrea Bachmann sér lítið fyrir og lokaði íslenska markinu. Varði öll vítin. Saga Sigurðardóttir Blöndal náði að skora úr sínu víti og tryggja íslenskan sigur á Spáni í fyrsta sinn.
Andrea var síðan kjörinn besti leikmaður Íslands að leik loknum.
Í tölum:
Spánn 2 – Ísland 3 (0-1, 1-0, 1-1, 0-0, 0-1)
Skot á mark: (10:11, 15:10, 11:8, 1:3, 0:1) 37:33
Nánari upplýsingar um gang leiksins má finna hér.

Sunna skoraði fyrst mark íslands

Berglind jafnaði og tryggði okkur framlengingu

Saga klobbaði markmanninn í vítinu sínu og tryggði sigur

Besti leikmaður liðsins í leiknum