Sigur á Mexíkó í fjórða leik

Sigur á Mexíkó í fjórða leik

Birt: 12.04.2025Flokkar: Fréttir
Sigur á Mexiko

Íslenska kvennalandsliðið vann fyrr í dag Mexíkó með 5 mörkum gegn 2. Það var aldrei spurning um hvar sigurinn myndi lenda heldur bara hversu örugglega stúlkurnar myndu sigla þessu heim.

Leikurinn var okkar frá fyrstu mínútu. Saga Blöndal setti tóninn og þrumaði pekkinum í netið frá bláu þegar rúmlega 10 mínútur voru búnar af leiknum og við í yfirtölu. Stoðsendingarnar áttu þær Kolbrún Garðarsdóttir og Berglind Leifsdóttir.  Þar við sat í fyrsta leikhluta.

Í miðjum öðrum leikhluta skoraði Sunna Björgvinsdóttir mark eftir sendingu frá Silvíu Björgvinsdóttur. Mínútu síðar skoraði Laura-Ann Murphy eftir stoðsendingar frá Sögu Blöndal og Kolbrúnu Björnsdóttur. Þá var komið að Ragnhildi Kjartansdóttur sem skoraði 2 mínútum seinna eftir stoðsendingu frá Sunnu Björgvins. Aftur liðu bara rétt um tvær mínútur þegar Friðrika Magnúsdóttir skoraði 5. mark okkar og sitt fyrsta með kvennalandsliðinu og örugglega ekki það síðasta .  Enn var það Sunna sem átt stoðsendinguna. 5-0 staða eftir annann leikhluta. Okkar konur slökuðu aðeins á í þriðja leikhluta og Mexíkönsku stúlkurnar gengu á lagið og settu 2 mörk. Sigurinn var þó aldrei í hættu.

Andrea stóð á milli stanganna í fyrstu 2 leikhlutunum og í þeim síðasta kom Birta Helgudóttir inn í markið. Glæsilegur sigur hjá okkar konum. Friðrika Magnúsdóttir var útnefnd besti leikmaður liðsins í þessum leik.

Leikurinn í tölum

Ísland – Mexíkó 5-2 (1-0, 4-0, 0,2)
Skot á mark: 40:24 (12:8, 17:10, 11:6)

Myndir af markaskorurum dagsins hér að neðan.