Háspenna lífshætta – 18 víta leikur!!

by | 17 des, 2025 | Fréttir, Toppdeild Karla

Taugar voru þandar til hins ýtrasta í Laugardalnum í gærkvöldi þegar loka leikur Topp deildar karla á þessu ári fór fram. Leikurinn fór í framlengingu og síðan í vítakeppni og úrslit náðust ekki fyrr en í 18. víti. Skautafélag Akureyrar fer í jólafrí með 16 stig og Skautafélag Reykjavíkur með 14.

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrstu lotunni. Það var síðan aðeins liðin rétt rúm hálf mínúta af annarri lotu þegar Unnar Hafberg Rúnarsson komst einn innfyrir vörn SR og lék laglega á Ævar markvörð SR og skoraði. Forystan varði þó ekki lengi því rúmri einni og hálfri mínútu síðar skoraði Styrmir Maack fyrsta mark SR og jafnaði í 1-1. Norðanmenn náðu aftur forystu með góðu skoti um miðja lotu frá Hank Nagel. Þetta mark var nokkuð gegn gangi leiksins því sóknarþungi SRinga var mikill. Róbert Steingrímsson markvörður átti algerlega frábæran leik og hélt SA á floti, frábært framlag hans kom í veg fyrir að SR kláraði leikinn í annarri lotu. Í þessari lotu átti SR 23 skot á mark SA á meðan SA átti 6 skot á mark SR. Markvörslurnar margar hjá Róbert þannig að maður missti höku niður í bringu og spurði sjálfan sig „Hvernig í óskupunum fór hann að því að verja þetta?“

Aftur náðu SR-ingar að jafna þegar um stundarfjórðungur var eftir af þriðju lotunni, Styrmir Maack með sitt annað mark í leiknum.  SR-ingar náðu síðan forystunni í fyrsta skipti í leiknum þegar tæp sex og hálf mínúta var eftir og enn var það Styrmir Maack sem skoraði sitt þriðja mark. Glæsileg þrenna hjá Styrmi. Það var svo þegar SRingar héldu að þeir væru að sigla þessu heim sem þeir Robbie Delport og Unnar Rúnarsson gerðu harða atlögu að marki SR og pökkurinn rann út í teiginn þar sem Ormur Jónsson þakkaði pent fyrir og smellti pekkinum í netið. Jafnt á ný og rétt mínúta eftir að venjulegum leiktíma. Hér var farið að hitna verulega í hölllinni og bráðfjörugar sekúndur runnu út án þess að tækist að knýja fram úrslit. Á þessum síðustu sekúndum leiksins urðu smá atlot á milli leikmanna sem enduðu þannig að þeim Hafþóri Sigrúnarsyni SA og Eduard Kascak SR var vísað til búningsherbergja og leikurinn fór í framlengingu.  Ekki tókst heldur að knýja fram úrslit í framlengingu og því var gripið til vítakeppni.

Aftur voru báðir markverðirnir algerlega frábærir. Það var ekki fyrr en í 13. vítaskoti sem Kári Arnarsson náði að setja pökkinn inn fyrir SR. 14. vítið tók reynsluboltinn Jóhann Leifsson fyrir SA og tókst honum að jafna og áfram hélt spennan sem var rosaleg. það var síðan í 18. vítaskoti kvöldsins sem Unnari Rúnarssyni tókst að finna smá holu hjá Ævari markverði SR og tryggði hann SA auka stigið sem var í boði.  Skautafélag Akureyrar fer í jólafrí með 16 stig og Skautafélag Reykjavíkur með 14. Síðustu leikir þessara liða hafa verið algerlega stórkostleg skemmtun Jafnir og spennandi fram á síðustu mínútu, líklega er réttara að segja fram á síðustu sekúndu.

Myndir: Hafstein Snær Þorsteinsson 

Á aðalmynd þessarar fréttar er Hákon Marteinn Magnússon á flugi í markteig SA

Leikurinn í tölum.

SR-SA 3-4 (0-0, 1-2, 2-1, 0-0, 0-1)

Skot á mark SR-SA 49-26 (13-9, 23-6, 10-7, 0-1)

SR
Mörk/stoðsendingar: Styrmir Maack 3/0, Alex Máni Sveinsson 0/2, Gunnlaugur Þorsteinsson 0/2, Kári Arnarsson 0/1, Eduard Kascak 0/1.
Varin skot: Ævar Björnsson 22 af 26 í leik (84,6%), varði auk þess sex víti.
Refsimínútur: 35.

SA
Mörk/stoðsendingar:  Hank Nagel 1/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/1, Ormur Jónsson 1/0, Robbe Delport 0/2, Jóhann Már Leifsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 46 af 49 (93,8%), varði auk þess sex víti.
Refsimínútur: 39.

Hákon Marteinn Magnússon og Níels Hafsteinsson leikmenn SR

Kári Arnarsson gerir atlögu að marki SA

Gunnlaugur Þorsteinsson að ná valdi á pekkinum

Styrmir Maack var með þrennu í leiknum.

Kári Arnarsson og Jóhann Leifsson í dómarakasti

Unnar Rúnarsson að fagna marki

Hákon á hælum Matthíasar

Share This