A-landslið karla; Æfingar á Akureyri

A-landslið karla; Æfingar á Akureyri

Hóp mynd af a landsliði karla
Æfing á Akureyri

Vlado fer yfir málin

Nú um helgina stóðu yfir A-landsliðsæfingar karla á Akureyri. Æfingarnar voru þær fyrstu fyrir heimsmeistaramótið, sem verður haldið í Madríd 16. – 22. apríl næstkomandi. 

Eftir frábæran árangur í Laugardalnum í fyrra, þar sem íslenska liðið sigraði deildina sína með glæsibrag, er liðið komið upp um deild og bíða þar enn sterkari lið. Löndin sem Ísland mætir eru Ástralía, Króatía, Spánn, Ísrael og Georgía, en Georgía fylgir okkur upp um deild.

Við kíktum við á æfingu hjá þeim og heyrðum hljóðið í nokkrum leikmönnum og landsliðsþjálfaranum Vladimir Kolek.

Við náðum tali af Heiðari Gauta Jóhannssyni og aldursforsetanum í hópnum, en hann er enginn annar er Ingvar Þór Jónsson. Ingvar hafði sagt skilið við landsliðskautana og var ekki með liðinu í fyrra, en fékk boð um að mæta núna aftur.

Ingvar segist vera ánægður með hópinn og tekur fram að það sé miklu meiri breidd nú en fyrir nokkrum árum, “Það er alltaf gaman að ná saman þessum hóp […] það eru bara allir góðir”. Heiðar tekur í sama streng. “Stemningin er góð, við strákarnir þekkjum vel hvern annan, við höfum spilað oft saman”. Spurðir hvernig æfingarnar séu búnar að ganga segir Heiðar að þær séu búnar að ganga vel, “Það er mikið tempo, mikið af skauti”. 

Ingvar segir að þó svo að endanlegur hópur liggi ekki fyrir eigi að byggja ofan á velgengni síðasta móts. “Liðið er komið í deild núna sem það var í fyrir nokkrum árum […] deild sem við viljum meina að við eigum frekar heima í”. Liðin og standardann í deildinni er hærri og eru engir leikir þar að fara vinnast 10-2, eins og Ísland gerði við Búlgverja í fyrra. Ingvar segir að það sé allt of snemmt að spá eitthvað í hinum liðunum í deildinni. “Við verðum bara að spila okkar leik, spila stíft og grimmt og nýta okkar sóknir”. Heiðar er sammála þessu. “Það verða engir auðveldir leikir, við verðum bara að æfa stíft og vel og sýna það aftur að við eigum heima í þessari deild” segir Heiðar.

Ingvar tekur einnig fram að það sé ómögulegt að spá fyrir hvernig lið koma til móts. “Í stærri íþróttum er hægt að fylgjast með gengi landsliða og einstakra leikmanna, hvernig þeir eru að standa sig í félagsliðunum og svoleiðis, en hérna erum við bara að renna blint í sjóinn”.

Landsliðsþjálfarinn Vladimir Kolek, kallaður Vlado, segist vera ánægður með hvernig æfingarnar hafa gengið fyrir sig. “Okkur vantar nokkra leikmenn, bæði eru nokkrir að díla við meiðsli og svo nokkrir sem einfaldlega komust ekki”. Vlado segir að það sé mikið álag á leikmönnunum núna þar sem að þjálfarateymið sé að leggja miklar áherslur á kerfisbreytingar. Einnig er tempoið töluvert hærra á þessum æfingum en leikmennirnir séu vanir. “Tempoið þarf að vera hærra því leikirnir verða á hærra tempoi, það er ekkert hjá því komist þegar við erum að tala um landslið”. Vlado hefur þó ekki áhyggjur af þeim breytingum sem þjálfarateymið sé að gera. “Svona breytingar taka tíma en við eigum tvær æfingasyrpur eftir fyrir mótið og […] ég trúi því að við munum vera með gott lið og munum ná árangri á mótinu”. 

 

Fréttir af ihi.is