Fjölnir – SA tvíhöfði 11-12. febrúar. Hertz-deild kvenna

Fjölnir – SA tvíhöfði 11-12. febrúar. Hertz-deild kvenna

Birt: 12.02.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
Varsla

Helgina 11-12 febrúar áttust við Fjölnir og SA í Hertz-deild kvenna í svokölluðum tvíhöfða þar sem tveir leikir eru spilaðir á einni helgi.

SA mættu til leiks ósigraðar á tímabilinu en Fjölnir var staðráðinn í að breyta gangi mála. Í fyrsta leikhluta var allt í járnum þar sem bæði lið vörðust vel og markverðir lokuðu báðum mörkum. Í öðrum leikhluta fór Fjölnir að sækja í sig veðrið og komst 1-0 yfir eftir átta mínútur með flottu skoti frá #5 Sigrúnu Agöthu. Fimm mínútum seinna bætti #21 Elísa Sigfinnsdóttir við öðru marki Fjölnis eftir flott spil fyrir framan mark SA og staðan því 2-0 fyrir heimaliðinu. Í þriðja leikhluta var spennan orðin mikil þegar #24 Katrín Björnsdóttir minnkaði muninn í 2-1 með frábæru skoti í fjærhornið, fjórum mínútum fyrir leikslok. SA tók á það ráð að taka markavörðinn sinn út af og bæta við útispilara í von um að jafna leikinn á lokastundu en pökkurinn hrökk í kylfuna hjá #3 Maríu Kristjánsdóttur sem lagði hann snyrtilega í tómt mark SA. Lokatölur 3-1 Fjölni í vil og fyrsti sigur þeirra á SA á tímabilinu.

 

Seinni leikur helgarinnar fór af stað af miklum krafti er #5 Sigrún Agatha stal pekkinum á bláu línunni, skaut úr þröngu færi og kom Fjölni í 1-0 eftir tæpar fimm mínútur af spili. SA ætlaði ekki að missa leikinn frá sér er #68 Magdalena Sulova tók frábært skot af löngu færi með góða umferð fyrir framan markið og jafnaði 1-1 á fjórtándu mínútu. Strax í byrjun á öðrum leikhluta var #5 Sigrún Agatha aftur á ferðinni og kom pekkinum í markið með laglegu skoti. Fjölnir virtist stjórna leiknum meira og sýndu það með flottu spili sem endaði í kylfunni hjá #3 Maríu Kristjánsdóttur sem lagði hann inn og kom Fjölni í 3-1. Í þriðja leikhluta voru bæði lið öflug og ljóst að SA þurfti að spýta í lófana ef þær vildu hafa einhver stig með sér heim. En svo var ekki er #17 Kolbrún Garðarsdóttir tók málin í sínar hendur og bar pökkinn alla leið úr sínu varnarsvæði yfir að marki SA og setti hann í netið með hörkuskoti og kom Fjölni í 4-1. Ekki var allt púður búið hjá SA en þær nýttu sér yfirtölu undir lok leiks er #77 Herborg Geirsdóttir kom sér í gott færi og smellti pekkinum sláin inn og minnkaði muninn í 4-2 sem urðu lokatölur leiksins. Fjölnir er nú komið með 27 stig og saxar á forskot SA sem eru með 33 stig á toppnum.