Fjölnir – SA tvíhöfði 17-18. febrúar. Hertz-deild karla

Fjölnir – SA tvíhöfði 17-18. febrúar. Hertz-deild karla

Birt: 19.02.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
Jói L

Annar tvíhöfði var á dagskrá um helgina en í þetta sinn voru það karlalið Fjölnis og SA sem áttust við í æsispennandi leikjum.

Fyrri leikurinn byrjaði þó nokkuð vel, strax var mikið um skaut og ljóst að hörkuleikur væri framundan. Menn voru aðeins að hita upp skotin sín svona í byrjun leiks en fyrsta markið koma ekki fyrr en eftir 16 mínútna spil. #21 Viggó Hlynsson skýtur í púðana hjá markmanni SA, #55 Jakobi Jóhannssyni sem speglast svo beint út í kylfuna hjá #20 Emil Alengaard sem afgreiðir færið og kemur Fjölni 1-0 yfir.

Fjórar mínútur inn í annan leikhluta er Fjölnir aftur á kreiki þegar skot frá blá endar niður við mark SA og þar er smá hræra á mönnum sem endar með því að pökkurinn skoppar af #25 Hilmari Sverrissyni og inn, 2-0 fyrir Fjölni. SA gefst ekki það léttilega upp en tveimur mínútum seinna er hár pökkur í varnarsvæði Fjölnis sem #39 Styrmir Snorrason reynir að grípa en hann hrekkur einhvern veginn úr hanskanum og inn. SA minnkar því muninn í 2-1. Mikill kraftur var byrjaður að myndast í SA mönnum þar sem þeir spiluðu háa pressu stóran hluta leiks og gáfu Fjölni engan tíma í sínu varnarsvæði. Það leiddi svo að marki þegar #19 Andri Mikaelsson vinnur pökkinn í hárri pressu og finnur #10 Jóhann Leifsson aleinan fyrir fram mark Fjölnis sem sneiddi svo pökkinn snyrtilega í fjærhornið úr stuttu færi. #10 Jóhann Leifsson var svo aftur á ferðinni þegar hann nær pekkinum í varnarsvæði Fjölnis, skautar upp að blá línunni og aftur niður í svæðið, hótar skoti en keyrir svo bakvið mark og treður pekkinum inn við stöngina, svo kallað wrap around. SA komnir 2-3 yfir.

Ekki varð meira um mörk í þriðja leikhluta en spennuna og hörkuna vantaði ekki. Hiti var í mönnum og nýtt voru öll tækifæri til að spila líkamlega.

Aðspurður eftir leik sagði #10 Jóhann Leifsson að íkveikjan hafi verið að lenda 2-0 undir, þá hafi SA vaknað til lífs, farið að skauta og berjast meira.

Seinni leikurinn varð ekki fyrir vonbrigðum en maður gat strax séð að mikill hiti ætti eftir að vera uppi í Egilshöll þetta kvöld. Á þriðju mínútu nýtti #10 Jóhann Leifsson sér að pökkurinn hoppaði yfir kylfuna hjá Fjölnismanni og kom sér í skyndisókn sem hann kláraði með að setja pökkinn í netið, SA 0-1 yfir. Það tók Fjölni um það bil tíu mínútur að svara fyrir sig en #25 Hilmar Sverrisson skýtur frá rammanum í #20 Emil Alengaard á fjærstönginni sem speglar pekkinum inn, 1-1 og allt í járnum eftir fyrsta leikhluta.

Uppsafnaður æsingur manna á milli var orðinn greinilegur þar sem hver tækling var hörð og oftar en ekki varð einhver kýtingur út frá henni. #4 Martin Simanek skoraði eina markið í öðrum leikhluta en hann bar pökkinn með sér í þægilegt pláss inn í varnarsvæði SA og flengdi honum svo upp í hornið. Fjölnir 2-1 yfir á leið í hlé.

Sex mínútur inn í þriðja leikhluta er #10 Jóhann Leifsson aftur á ferðinni fyrir SA þegar hann smeygir sér í slottið óséður og fær pökkinn beint í spaðann sem hann skilar inn í mark Fjölnis. 2-2 og allt getur gerst. Fjölnir tekur forystuna en #21 Viggó Hlynsson keyrir með pökkinn upp rammann og hendir honum á mark SA og með pressu frá #86 Vigni Arasyni þá hrekkur pökkurinn inn. 3-2 fyrir Fjölni. SA ætlaði alls ekki að láta kyrrt liggja en #19 Andri Mikaelsson nýtti sér næstu yfirtölu sem þeir fengu til þess að jafna leikinn og setja hann í framlengingu. Æsispennandi leikur sem var hverrar krónu virði.

Bæði lið gerðu sig líkleg til að enda leikinn í framlengingunni. Fjölnir átti hættulegt færi þegar #20 Emil Alengaard gekk með pökkinn framhjá öllum og virtist ná að leggja hann inn en #35 Róbert Steingrímsson náði að teygja höndina út og stoppa pökkinn á síðustu stundu, frábær varsla. Einhverjar stympingar leiddu svo til brottvísunar á Fjölni og þurftu þeir því að spila manni færri það sem eftir var leiks. Til að klára leikinn var #10 Jóhann Leifsson aftur á ferðinni, kemur sér í færi og sneiðir pökkinn í fjærhornið. Tryggir þar með SA sigurinn og fullkomnar þrennuna sína. Þvílíkur leikur.

Fréttir af ihi.is