Leikur 2. Úrslitakeppni kvenna
Leikur 2. Úrslitakeppni kvenna
Eftir æsispennandi fyrsta leik á Akureyri, þar sem SA vann 1-0 í vító, voru leikar færðir suður í Grafarvoginn.
Fyrsti leikhluti byrjaði á nokkuð jöfnu spili beggja megin þar sem bæði lið vildu vera fyrst á blað. Það var svo í höndum Fjölnis að brjóta ísinn þegar #5 Sigrún Agatha fékk pökkinn við mitt svellið, bar hann inn og skaut þrumuskoti í efra fjærhornið. Fjölnir 1-0 eftir rúmar 12 mínútur af spili.
Annar leikhluti fór strax af stað af fullum krafti hjá SA, þær koma grimmar inn og skora eftir rúmar tvær mínútur þegar #24 Katrín Björnsdóttir tekur frákastið af löngu skoti og skilar honum í netið. Jafn leikur 1-1. SA konur virðast vera komnar á skrið því rúmlega tveim mínútum seinna eru þær aftur á ferðinni þar sem að hörð pressa og aðferðin að koma pekkinum á markið sér pökkinn fara þvert yfir krísuna hjá Fjölni þar sem #77 Herborg Geirsdóttir fær hann og leggur inn af stuttu færi. 1-2 SA í vil. SA konur eru hvergi nær saddar í sinni markaskorun því þær halda áfram að ógna marki Fjölnis af fullum krafti sem endar á sendingu frá #18 Berglindi Leifsdóttur sem #11 Hilma Bergsdóttir tekur upp rétt fyrir framan markið og skorar úr þröngu færi. SA konur komnar með tveggja marka forystu 1-3. Spennan er orðin áþreifanleg enda fjörugur leikur í Egilshöllinni.
Þriðji leikhluti lofar áframhaldandi spennu þar sem allt getur gerst. Bæði lið byrja af mikilli hörku og klárt að það er mikið keppnisskap á svellinu. Fjölniskonur líklega orðnar aðeins þreyttari enda úr minni mannskap að moða en það var ekki að sjá því þær gáfu SA ekkert eftir í leit sinni að næsta marki. Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir að leiknum nýtir Fjölnir sér yfirtölu er #17 Kolbrún Garðarsdóttir tók fast skot niðri í gegnum klofið á markmanninum. Staðan 2-3 og spennan eykst. Harkan hefur einnig aukist til muna og leikmenn farnir að brjóta meira af sér. Fjölniskonur þurftu því að spila þrjár á móti fimm í rúma eina og hálfa mínútu en stóðu það af sér. Stuttu eftir að það verður jafnt í liðum er #77 Herborg Geirsdóttir á ferðinni og lokar dílnum þegar hún vippar pekkinum fast í nærhornið og tryggir SA sigurinn, 2-4. Virkilega harður og spennandi leikur þar sem ekkert var gefið eftir.
SA leiðir einvígið 2-0 og geta hampað Íslandsmeistaratitlinum þriðjudaginn 7. mars á heimavelli, en Fjölnir mun gera allt sitt til þess að koma í veg fyrir það.
Hægt er að horfa á upptöku af leiknum hér að neðan af Youtube-rás ÍHÍ.