Ekki bara Emil í Kattholti og allir ljóshærðir

Ekki bara Emil í Kattholti og allir ljóshærðir

image00010

„Ég byrjaði fimm ára á listskautum og svo þegar ég var sex ára skipti ég yfir í hokkíið,“ segir Akureyringurinn Sunna Björgvinsdóttir, lykilmanneskja í íslenska kvennalandsliðinu, sem hermdi hokkíiðkunina eftir frænku sinni er hún leit upp til sem barn svo sem verða vill. Nú er svo komið að Sunna er búsett í Södertälje, úthverfi sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms, þar sem hún stundar ísknattleikinn af krafti með félaginu Södertälje SK.

Ferilinn hóf hún vitanlega hjá Skautafélagi Akureyrar, Innbæingur þar í bænum eins og það heitir hjá heimamönnum, og æfði þar fram að stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2019 en Sunna er fædd aldamótaárið 2000. Fyrsta liðið sem hún lék með í Svíþjóð var einmitt það lið sem nýtur krafta hennar nú, Södertälje SK. Til að byrja með var hún þó aðeins þar fyrsta árið sitt áður en hún flutti til Ljungby og gekk þar til liðs við Troja. Sunna sneri svo aftur til höfuðborgarinnar og gekk þar til liðs við Haninge Anchors áður en hún lokaði hringnum hjá Södertälje.

En hvernig komu þessir búferlaflutningar til Svíþjóðar til?

„Við Silvía Björgvinsdóttir höfðum spilað saman síðan við vorum smábörn og okkar draumur var alltaf að fara til Svíþjóðar. Á Íslandi eru náttúrulega bara þrjú lið og maður er kominn á toppinn þegar maður er fimmtán ára og kemst þá ekkert hærra,“ útskýrir Sunna. Liðsstjóri Södertälje hafði þá verið í sambandi við þær Silvíu og þær ákváðu að láta slag standa, þó ekki væri nema til að kynnast því hvernig væri að stunda íþróttina í Svíþjóð.

Sunna fagnar eftir að hafa skorað mark á heimsmeistaramótinu á Akureyri 2019.

 

Covid setti strik í reikninginn

„Fyrst langaði mig bara að prófa eitthvað, ég vissi ekkert um Svíþjóð eða liðin eða neitt,“ rifjar Sunna upp og segir í raun tilviljun hafa ráðið því að leið hennar lá til Södertälje. Hún segir liðið ekki hafa verið upp á sitt besta á þeim tíma og þar sem vinkonur hennar hafi þá spilað með Troja hafi hún ákveðið að prófa eitthvað nýtt eftir fyrsta tímabilið með Södertälje.

Ekki lék Sunna þó fleiri en fjóra leiki með Troja þar sem heimsfaraldurinn skall á um þær mundir sem hún var komin til Ljungby svo þá var ekkert annað að gera en að flytja heim til Akureyrar í bili og klára tímabilil 2020 til 2021 þar. „Þá gat ég alla vega verið á æfingum og fengið að spila eitthvað,“ rifjar Sunna upp og játar að faraldurinn hafi sett visst strik í reikninginn en mest um vert hafi verið að hún gat æft á Akureyri og haldið sér í formi á meðan íþróttin var í lamasessi í Svíþjóð.

„Ég er að vinna, það er engin kona í heiminum sem getur lifað á íshokkílaunum,“ svarar Norðlendingurinn hispurslaust, innt eftir því hvort hún lifi af íþróttaiðkun sinni. „Klúbburinn reddar manni vinnu, núna er ég að vinna hjá einhverju bílafyrirtæki, ég er bara að keyra og leggja bílum í stæði. Maður þarf að hafa vinnu með sveigjanlegum vinnutíma af því að við erum á morgunæfingum og kvöldæfingum til skiptis auk þess að keppa,“ segir Sunna sem nær að vinna hlutastarf samhliða öllu því sem er að gerast á ísnum.

Hvernig er þá dagurinn hjá henni eiginlega?

„Það er mismunandi, vikurnar eru mjög ólíkar. Yfirleitt erum við með einn til tvo leiki á viku og þá erum við með æfingar alla hina dagana, mögulega einn frídag,“ svarar Sunna. Skiptist þar á styrktaræfingar og ísæfingar og svo á hinn bóginn morgun- og kvöldæfingar. Morgunæfingarnar eru þó ekki á mjög ókristilegum tíma segir hún aðspurð. „Nei nei, þær eru allt í lagi, önnur er klukkan átta og hin hálfníu.“

 


Sunna fagnar deildar- og Íslandsmeistaratitlunum árið 2021, Covid-tímabilið eins og hún kallar það.

Liðið frá öllum heimshornum

Styrktaræfingarnar segir hún mikið til ganga út á sprengikraft og snöggar hreyfingar frekar en að þar sé mikil áhersla lögð á úthald. „Þetta er mjög íshokkítengt og þá passar best að vera með svona „intervals“ [lotuþjálfun], vinna ótrúlega hart í stuttan tíma og hvíla stutt á milli, en á sumrin er þetta allt öðruvísi, þá erum við miklu meira að æfa þrek og lyfta mun þyngra,“ útskýrir Sunna.

Hún kveðst líklega aldrei hafa spilað í liði með iðkendum af eins mörgum þjóðernum og nú, bornir og barnfæddir Svíar séu þar aðeins fimm eða sex, „en ég flokkast reyndar sem Svíi núna því ég spilaði í þrjú ár í Svíþjóð áður en ég varð 21 árs. Annars erum við með stelpur frá Slóveníu, Spáni, Hollandi, Noregi, Kanada, Ítalíu, Bretlandi, Austurríki og Íslandi og bara alls staðar frá,“ segir Sunna af þessu fjölmenningarlega liði sínu.

Hún segir Spánverja nokkuð öfluga íshokkíþjóð, þvert ofan í það sem kannski einhverjir hefðu reiknað með miðað við loftslag þar, sem er ívið heitara en gallharðar íshokkíþjóðir á borð við Svía og Kanadamenn eiga að venjast. „Þeir eru einmitt í sömu deild og við Íslendingar vorum að komast í núna á síðasta HM svo hingað til hafa Spánverjar verið betri en Íslendingar í íþróttinni en nú erum við búin að ná þeim. En þeir spila miklu meira svona in-line-hokkí sem er innanhúss á línuskautum,“ segir Sunna og einhvern veginn hljómar það mun eðlilegar en glampandi spænskt skautasvell. „Markmaðurinn okkar var áður á línuskautum í mörg ár og kunni ekki neitt þegar hún steig fyrst á íshokkískauta,“ bætir hún glettnislega við.

 

Sunna skýtur að markinu í leik með núverandi liði sínu, Södertälje SK í Svíþjóð.

Sarah Smiley lyfti grettistaki

Sunna segir íshokkíið risasport í Svíþjóð og gerólíkt því sem á Íslandi er. „Á Íslandi er það bara fótbolti og handbolti en hérna er íshokkí númer eitt og allir að fylgjast með því, það er ekki hægt að bera þetta saman,“ segir hún en játar þó að vissulega eigi boltaíþróttirnar sinn örugga sess meðal Svía rétt eins og á Íslandi.

Hvernig finnst henni íshokkí þá standa á Íslandi?

„Ja, það eru náttúrulega bara þrjú lið og þrjár skautahallir en til dæmis á Akureyri hefur sportið tekið rosalegan kipp og iðkendum fjölgað mjög hratt þannig að núna væri til dæmis ekkert slæm hugmynd að búa til annað lið fyrir norðan. Þegar Sarah Smiley [þjálfari hjá Skautafélagi Akureyrar] flutti til Íslands þegar ég var sex ára hafði hún mikil áhrif á íshokkísamfélagið á Akureyri. Hún kom til dæmis í grunnskólann minn og var með kynningar úti um allt. Hún hafði rosaleg áhrif á barnastarfið,“ rifjar Sunna upp.

Eins segir hún Skautafélagi Reykjavíkur hafa vaxið fiskur um hrygg, einkum og sér í lagi með öflugu barnastarfi. „Þetta byrjar náttúrulega allt á barnastarfinu en svo þarf líka að líta til þess að það er ekki oft fjallað um þetta í sjónvarpinu, við unnum til dæmis gull á heimsmeistaramótinu í fyrra, bæði karla- og kvennaliðið í okkar flokkum, en það var lítið fjallað um það, íslenskir fjölmiðlar mættu alveg sinna hokkíinu betur,“ segir Sunna og nefnir sérstaklega að þótt íshokkí sé karlasport, innan gæsalappa, hafi þátttaka kvenna aukist hröðum skrefum hin síðustu ár.

 

Sunna í leik með kvennalandsliðinu á heimsmeistaramótinu 2020 á heimaslóðum hennar á Akureyri.

Aðalmaturinn kebab

Þótt dagskrá Sunnu hljómi ekki eins og þar sé mikið um frítíma tjóir ekki annað en að spyrja hana samt hvað hún geri í frítímanum. Eru tómstundamálin fleiri en íshokkí?

„Já já, ég er svolítið mikið heima bara, ég á hvolp hérna heima og kærustu svo maður er mikið bara heima að „chilla“ og svona,“ segir Sunna og játar í framhaldinu að framtíðaráætlanirnar séu ekki fastmótaðar þótt henni líði vel í Svíþjóð. „Ég veit ekki hvort ég verð hérna, það væri gaman að fara heim og byggja upp starfið þar en akkúrat núna ætla ég mér bara að komast eins langt og ég get á meðan líkaminn leyfir,“ segir landsliðskonan og ber Svíum vel söguna.

„Það var alveg pínu sjokk þegar ég kom hérna fyrst,“ segir hún þó og getur ekki varist hlátri, „þegar maður hugsaði um Svíþjóð var það bara Emil í Kattholti og allir ljóshærðir en þannig var það sko ekki. Hérna eru svo margir innflytjendur og rosalega margar menningar í gangi. Aðalmaturinn hér er bara kebab,“ segir Sunna og kremur drauminn um sænsku kjötbollurnar frægu eins og flugu.

„Það kom líka á óvart að hérna í Södertälje eru tvö stór glæpagengi, maður keyrir ekkert heim án þess að mæta löggunni og svo sveima þyrlur hér yfir á nóttunni, en svo lengi sem maður er ekki viðriðinn einhver gengi held ég að maður sé nú nokkuð öruggur hérna, þetta er voðalega mikið svona einhverjir bardagar á milli gengjanna,“ segir Sunna Björgvinsdóttir að skilnaði, landsliðskona og öflugur leikmaður Södertälje SK í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi.