HM karla í Madríd – Spjall við leikmenn

HM karla í Madríd – Spjall við leikmenn

DSC04968

Á sunnudaginn næsta (16. apríl) hefst Heimsmeistaramót karla, 2. deild A, í Madríd. Til leiks mæta lið Íslands, Georgíu, Ástralíu, Króatía, Ísrael og Spánar. Ísland vann eftirminnilega 2 deild B í fyrra í Laugardalnum og eru því komnir upp um styrkleika. Liðið er komið til Spánar og lætur eflaust fara vel um sig fyrir fyrsta leik sinn gegn Georgíu á sunnudaginn kl 10:30 að íslenskum tíma.

Síðustu helgi voru loka æfingar fyrir mótið þar sem allur hópurinn kom saman. Við náðum spjalli við félagana úr SA, Jóhann Leifsson og Andra Mikaelsson. 

Stemningin góð og liðið klárt

Strákarnir voru sammála um að stemningin væri góð i hópnum. Andri segir að “Liðið [sé] aðeins búið að ná að spila sig saman eftir helgina og erum klárir í þetta mót”. Jóhann tekur í sama streng. “Alltaf jafn skemmtilegt að fara og spila fyrir hönd Íslands”.

Spurðir út í hvernig loka æfingatörnin fyrir mótið hafi gengið voru þeir sammála um að þær hafi gengið vel. Það hafi þó tekið smá tíma að slípa saman línurnar en það hafi komið þegar á leið. “Hópurinn lítur vel út, blanda af gömlum reyndari og nýjum og ferskum strákum” sagði Andri. 

Ingvar Jónsson hefur snúið aftur í íslenska landsliðið. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Helstu áherslurnar voru settar á varnarsvæðið, powerplay og powerkill. Andri segir að það hafi það sama átt við með powerplay línurnar og venjulegu línurnar. “powerplay línurnar þurftu smá stund til að smella saman en leit vel út þegar leið á”.

Ný deild, sterkari mótherjar

Þeim lýst vel á að vera komnir upp um deild. Jóhann var mjög ánægður með stöðuna. “Við höfum verið í þessari deild áður þannig það er mjög gott að vera komnir í hana aftur”. Andri var sammála “Þetta er levelið sem við viljum spila á. Verða sennileg erfiðir en skemmtilegir leikir”. 

Áhersla var lögð á vörnina. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Talandi um erfiðari leiki spurðum við þá hvort þeir hefðu skoðað eitthvað ákveðið lið frekar en annað. Þeir svara því neitandi. Þeir treysta þjálfurunum fyrir því að gefa þeim þær upplýsingar sem þeir þurfa. Þeir hafa spilað við flest þessara liða áður en lið geta breyst mikið milli ára. “þjálfararnir byrja strax að skoða hvernig þau [hin liðin] spila eftir dag eitt” segir Andri.

Spurðir út í markmið liðsins á mótinu ættu svörin ekki að koma á óvart. “Fyrst og fremst að sanna að við eigum heima í þessari deild og halda okkur þar” segir Andri. Jóhann fer einum lengra, “markmið liðsins er alltaf að ná verðlauna sæti en það verður erfitt”.

Mikilvægustu spurningarnar

Að lokum spurðum við strákanna mikilvægustu spurningunna. Eruði búnir að æfa einhverjar goal celebrations? 

Jóhann: Nei hef held ég aldrei planað það eitthvað fyrirfram.

Andri: Heyrðu nei ekki svo gott.

Myndir í fréttinni eru af lokaæfingu liðsins þar sem æfingaleikur fór fram. Skipt var í tvö lið, Team Vlado og Team Sami. Við hjá íshokkí.is vitum hversu áríðandi það er að vita úrslit þessa leiks. “Það var jafnt eftir leikinn þannig þetta endaði í vító og Team Vlado hafði betur þar” upplýsti Jóhann. 

Team Sami vs Team Vlado. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Við hjá íshokkí.is þökkum Jóhanni og Andra fyrir að gefa sér tíma til að tala við okkur og óskum þeim og liðinu góðs gengis á mótinu.

ÁFRAM ÍSLAND!