HM karla í Madríd – Svekkjandi tap í lokaleik

HM karla í Madríd – Svekkjandi tap í lokaleik

Birt: 22.04.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
ISL-ISR_22.04.23_15

Loka leikur Íslands á HM karla var á móti Ísrael. Ísland þurfti á sigri að halda til þess að gulltryggja sætið sitt í deildinni. Ísrael var á botninum með 0 stig, en með sigri gat Ísrael fellt Ísland niður í neðsta sæti og hoppað upp fyrir Ísland. 

 

Fyrsti leikhluti

Aðeins tvær mínútur voru liðnar af leiknum þegar #16 David Levin, leikmaður Ísraels, átti laust skot á markið sem einhvernveginn lak inn framhjá #20 Jakobi Jóhannessyni. 1-0 fyrir Ísrael.

MIkil spenna var í leikhlutanum og harka í báðum liðum. Slagur braust út við mark Ísraels um miðjan leikhlutann, en ekkert var dæmt á það. Stuttu seinna jafnaði Ísland leikinn þegar #23 Jóhann Leifsson sendi pökkinn fyrir framan markið og #19 Andri Mikaelsson skoraði. 

#19 Andri Mikaelsson og #11 Hákon Magnússon fagna marki.

Restin af leikhlutanum var mjög jafn og vissu bæði liðin að mikið væri í húfi. Staðan var þó jöfn þegar flautan gall, 1-1.

 

Annar leikhluti

Annar leikhlutinn var heldur fjörugri en sá fyrsti og mikið um að vera. Ísland byrjaði á því að fá powerplay. #11 Hákon Magnússon reyndi skot en pökkurinn hafnaði á varnarmanni. Pökkurinn datt þar fyrir framan #19 Andra Mikaelsson sem reyndi einnig skot sem hafnaði á varnarmanni. Komst þá pökkurinn fyrir #5 Gunnar Arason sem skaut og skoraði og kom Íslandi yfir, 1-2 fyrir Íslandi.

Ísrael var ekki lengi að jafna. Tæpar 4 mínútur voru liðnar af leiknum þegar sending Íslands út úr sínu svæði hafnaði hjá Ísraels mönnum sem voru tveir á einn varnarmann. #17 Ilya Spektor og #7 Roy Aharonovich spiluðu á milli sín og sá síðarnefndi skoraði. Á 11 mínútu komust svo Ísraels menn aftur yfir. Ísrael sigraði uppkast inn á sínu svæði og hafnaði pökkurinn hjá #16 David Levin. David skautaði upp svellið og skoraði. 3-2 fyrir Ísrael.

Strákarnir voru fljótir að jafna leikinn með marki frá #22 Heiðari Jóhannssyni. #12 Emil Alengaard sendi á #5 Gunnar Arason sem átti skot langt utan af svelli sem markmaðurinn varði. Heiðar náði frákastinu og skoraði. 3-3.

#9 Aviv Milner reyndist okkur erfiður.

Fimm mínútur voru eftir af leikhlutanum þegar Ísland fékk aftur powerplay. Í staðinn fyrir að nýta sér yfirhöndina skorðu Ísraels menn. #16 David Levin vippaði pekkinum langt upp svellið þar sem #9 Aviv Milner náði honum. Varnarmaður Íslands skautaði hratt og komst fyrir framan Aviv en datt í leiðinni. Aviv var því einn á móti marki og skoraði eftir smá gabbhreyfingar. Þetta var í annað skiptið á mótinu þar sem við fengum á okkur mark þegar við vorum manni fleiri. En það þýddi að Ísraels menn voru komnir aftur yfir, staðan 4-3.

Undir mínúta var eftir af leikhlutanum þegar Ísrael kom stöðunni í 5-3 í powerplay-i. En og aftur var #16 David Levin á ferð. David skautaði upp svellið, þræddi sig í gegnum vörn Íslands og bjó til pláss fyrir #9 Aviv MIlner sem fékk pökkinn og skoraði. 

Erfiður leikhluti og mikil vinna eftir fyrir Ísland í þriðja leikhlutanum.

 

Þriðji leikhluti

Eflaust var kominn smá pirringur í strákana. Nokkrir fengu að hvíla sig í boxinu í leikhlutanum. Fyrsta mark leikhlutans kom á tíundu mínútunni. Pökkurinn fór yfir á svæði Íslands. Varnarmaður tók pökkinn fyrir aftan markið en #16 David Levin mætti strax í pressu og vann pökkinn. David sendi á #9 Aviv Milner sem var einn fyrir framan markið og skoraði. 6-3 fyrir Ísrael. Ísrael tók leikhlé þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Þeir tóku markmann sinn úr markinu og um 20 sekúndum seinna skora Ísraelarnir 7 markið sitt. #16 David Levin sendi á #17 Ilya Spektor sem átti skot langt utan af velli og skoraði.

#17 Ilya Spektor ánægður með loka markið.

 

Úrslit 7-3 fyrir Ísrael.

Vonbrigðin voru áþreifanleg hjá strákunum.

Ísland lenti því í neðsta sæti með 1 sigur og 4 töp. Gríðarlega svekkjandi niðurstaða og margt sem hægt er að bæta. Það er því eina í stöðunni að leggjast yfir hvað fór úrskeiðis, leiðrétta það og koma sterkari til baka að ári liðnu.

Leikskýrslu má finna hér og upptöku með því að smella hér.