„Karaktersigur hjá okkur í kvöld“ | Hertz-deild kvenna
„Karaktersigur hjá okkur í kvöld“ | Hertz-deild kvenna
Kvennalið SR tók á móti Fjölni í Laugardalnum í kvöld. SR byrjaði leikinn af miklum krafti sem virtist koma Fjölni í opna skjöldu. Það var ekki fyrr en heimakonur skoruðu fyrsta mark leiksins að gestirnir vöknuðu til lífsins og svöruðu strax í sömu mynt og bættu svo við öðru í yfirtölu nokkrum mínútum síðar. Staðan 1-2 eftir fyrsta leikhluta.
Fjölnir hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og bætti við þriðja markinu strax á 15. sekúndu en þó var enga uppgjöf að sjá á SR og skiptust liðin á að sækja og verjast. Fjölnir var sterkari aðilinn og bætti í forystuna þó SR ætti fjölmörg góð færi sem ekki tókst að nýta. 1-4 eftir annan leikhluta.
Jafnræði var með liðunum í lokaleikhlutanum og var það SR sem átti lokaorðið í leiknum með marki þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum en það reyndist eina mark leikhlutans. Lokatölur 2-4 og öll stigin þrjú fóru upp í Grafarvog.
Mörk SR
Alexandra Hafsteinsdóttir og Kristína Ngoc Davíðsdóttir
Mörk Fjölnis
Berglind Leifsdóttir (2), Laura Murphy og Sigrún Árnadóttir
Sölvi Atlason, þjálfari SR: „Þetta var mjög jafn leikur til að byrja með, bæði lið að sækja mikið og verjast vel. Við skorum fyrsta markið og þær svara fljótlega til baka. Við fengum svo frekar auman dóm, allt í góðu með það, en við náðum ekki að verjast manni færri.“ Sölva fannst liðið spila best í loka leikhlutanum: „Við settum harða pressu í þriðja leikhluta og markmiðið var að ná eins mörgum skotum og við gætum, krassa svo markið og skora einhver rebound mörk sem hefur gengið illa á þessu tímabili. En við náðum allavega einu slíku í þessum leik.“
Liðið missti einn sterkasta leikmann sinn þetta tímabilið er Malika varð frá að hverfa eftir aðeins þrjá leiki: „Malika er náttúrulega pjúra sóknarmaður og kveikti svolítið í sókninni okkar. En án hennar þurfum við að finna aðrar leiðir til að skora. Stelpurnar þurfa að stíga upp, sækja sjálfar á markið en ekki varpa ábyrgðinni yfir á einhvern annan.“ bætir Sölvi við að lokum.
Emil Alengård, þjálfari Fjölnis: „Þetta var karaktersigur hjá okkur í kvöld. Það er mikið um veikindi og meiðsli í hópnum en þær sem spiluðu stóðu sig vel og ég er stoltur af þeim.“
Emil finnst deildin mun jafnari áður: „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt tímabil, að spila jafna leiki ekki bara gegn SA heldur líka gegn SR. SR hefur verið að bæta sig og spilar gott hokkí, alltaf áskorun að mæta þeim í vetur – sem hefur ekki verið raunin undanfarin tímabil.“
Þið stefnið hraðbyri í úrslit gegn SA eftir áramót: „Já við viljum koma með gullið til Reykjavíkur og í Grafarvoginn – það væri geggjað og það er það sem við stefnum að. En það verður auðvitað áskorun.“ bætir Emil við að lokum.
Upptöku af leiknum má finna á Youtube-rás ÍHÍ í leiklýsingu Ævar Arngrímssonar og Jóhanns Ragnarssonar. Leikskýrslu má lesa hér.