SA komnar í jólafrí á toppnum

SA komnar í jólafrí á toppnum

SA-Fjö 18.11.23 Stefán Oddur Hrafnsson

Ljósmynd úr fyrri viðureign liðanna. Ljósmynd Stefán Oddur Hrafnsson

Fjölnir tók á móti SA í Egilshöllinni fyrr í dag í loka leik SA fyrir jólafrí. Leikurinn var jafn lengi vel og leit út fyrir að markalaust yrði eftir fyrstu lotu. Liðin skiptust á að sækja en Shawlee Gaudreault, SA, og Karítas Halldórsdóttir, Fjölnir, stóðu vaktirnar í mörkunum og héldu leiknum jöfnum. Silvía Björgvinsdóttir, SA, skorað þegar rúm mínúta var eftir af lotunni og stóð 0-1 eftir fyrstu lotu.

Klaufaskapur varð í byrjun annarar lotu hjá Fjölni þegar dómari dæmdi brot vegna of margra leikmanna á svellinu. Norðan konur nýttu tækifærið og Anna Sonja Ágústsdóttir bætti öðru marki við forskot SA. Arndís Sigurðardóttir kom SA 0-3 yfir stuttu seinna. Berglind Leifsdóttir, Fjölnir, bætti stöðu Fjölnis undir lok lotunnar og stóð staðan 1-3.

Fyrsta korter síðustu lotunnar var jafnt en Silvía Björgvinsdóttir bætti við öðru marki sínu fyrir SA þegar rúmar 5 mínútur voru eftir. 28 sekúndur voru eftir af leiknum þegar Berglind Leifsdóttir lagaði stöðuna í 2-4 og tók Fjölnir leikhlé í kjölfarið. Emil Alengård fór yfir mál Fjölnis og um leið og leik flautan gall skautaði Karítas Halldórsdóttir, markmaður Fjölnis, út af. Fjölnir ætlaði að freista þess að ná inn allaveganna öðru marki en allt kom fyrir ekki og loka úrslit 2-4 SA í vil.

SA trónir á toppi deildarinnar með 27 stig eftir 10 leiki og fara að öllum líkindum sáttar í jólafrí.

Fjölnir og SR mætast í loka leik fyrir jól þriðjudaginn næstkomandi, 19. desember, í Egilshöllinni kl 19:45. SR hefur þar tækifæri til þess að ná sér í fyrstu stig sín í vetur, en SR rekur lestina með 0 stig og FJölnir situr á milli SA og SR með 12 stig.

Upptöku af leiknum má finna á youtube-rás ÍHÍ.