Dramatískar lokamínútur | Hertz-deild kvenna

Dramatískar lokamínútur | Hertz-deild kvenna

Sigrún Árnadóttir var í miklu stuði í kvöld, skoraði bæði mörk Fjölnis. Hér sækir hún að Andreu í marki SR. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Fjölnir tók á móti SR í Egilshöll í kvöld í jöfnum og skemmtilegum leik.

Bæði lið byrjuðu af krafti og skiptust á að sækja en það var Fjölnir sem setti tóninn með marki Sigrúnar Árnadóttur á þriðju mínútu. Fjölnir náði meiri tökum inn á ísnum er leið á leikinn en náðu þó aldrei að drepa niður baráttuglaða SR-inga. Mikið var um góð færi á báða bóga sem ekki tókst að klára enda vörðust bæði lið vel með markmenn í banastuði.

Satu Niniimäki skapaði oft hættu fyrir framan mark Fjölnis og tókst einu sinni að koma pökknum fram hjá Karítas í markinu. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Það færðist heldur betur fjör í leikinn á lokamínútunum er bæði lið misstu mann út af með stuttu millibili. Fjórar á fjórar sækja SR-ingar að marki Fjölnis og af miklu harðfylgi tekst hinni finnsku Satu að koma pökknum í netið og jafna er rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Fjölnistúlkur voru staðráðnar í að láta ekki stig af hendi og strax í næstu sókn skoraði Sigrún sitt annað mark. SR tók Andreu úr markinu og setti inn sjötta sóknarmanninn en allt kom fyrir ekki og Fjölnir stóð uppi sem sigurvegari, 2-1.

Þetta er allt að koma

Alexandra Hafsteinsdóttir fyrirliði SR var nokkuð sátt með frammistöðu sín liðs í kvöld þrátt fyrir tap: „Mér fannst þetta mjög jafn leikur, við vorum mikið í sóknarsvæðinu, spiluðum vel og börðumst mjög hart. Við náðum helling af færum en náðum bara ekki að nýta þau almennilega en það er eitthvað sem við þurfum að vinna í.“

Alexandra fyrirliði SR í leiknum í kvöld. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Ungt lið SR hefur verið að sækja mikið í sig veðrið en er enn án stiga á sínu fjórða tímabili: „Nú er þetta að koma. Við erum með nýjan þjálfara sem er að gera góða hluti og er að vinna mjög vel með leikmönnunum í liðinu. Við erum farnar að spila betur saman, búnar að spila lengur saman, ungu stelpurnar orðnar eldri og reynslumeiri og vita betur hvað þær eru að gera.

Alexandra er mjög ánægð með nýjustu viðbótina í liðið: „Satu er geggjuð, þvílíkur fengur að fá hana í liðið. Ekki nóg með að hún er langbesti leikmaðurinn inn á ís heldur er hún líka ótrúlega jákvæð og peppandi. Við erum mjög sáttar með hana.“

Bikarinn í bæinn

Kristín Ingadóttir fyrirliði Fjölnis um leikinn: „Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið besti leikurinn sem við höfum spilað sem lið, en við áttum góða kafla og svo aðeins slakari kafla. SR spilaði líka mjög vel og stóð alveg vel í okkur. Við áttum mörg góð færi og margar góðar sóknir en pökkurinn fór bara ekki inn, vorum ekki að ná að fylgja nógu vel eftir.“

Kristín Ingadóttir fyrirliði Fjölnis í leik kvöldsins. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Aðspurð um seinni hluta tímabilsins segir Kristín að hópurinn sé nokkuð heill þó er Kolbrún Garðarsdóttir enn að glíma við meiðsli. En liðið sé farið að huga að úrslitakeppninni: „Okkar helsta markmið er að undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina og taka bikarinn í bæinn, það er kominn tími á það. Við ætlum að undirbúa okkur vel og læra af þeim mistökum sem við höfum verið að gera í vetur  – það er númer eitt tvö og þrjú hjá okkur núna.“

Kristín er ánægð með tímabilið og bætir við að lokum: „Þetta er búið að vera skemmtilegt tímabil, leikirnir hafa verið að vinnast á síðustu mínútunum. Það er það sem gerir þetta sport svo skemmtilegt að leikurinn getur snúist svo hratt, eins og við sáum hérna í kvöld. SR jafnaði en við náðum að koma til baka mjög fljótt. Mér fannst það sýna góðan karakter að við náðum að vinna þetta bara í næstu sókn. Ég er bara mjög stolt af því.“

Hertz-deild kvenna er nú komin í jólafrí en hefst aftur 20. janúar er Fjölnir fær SA í heimsókn í Egilshöll.

Tölfræði leiksins má finna hér og upptöku á Youtube rás ÍHÍ hér.

Höfundur: