Hafnfirðingar í hefndarhug
Hafnfirðingar í hefndarhug
Skautafélag Hafnarfjarðar spilar tvo leiki við Skautafélag Akureyrar um helgina. Fyrri leikurinn fór fram í dag og segja má að Hafnfirðingarnir hafi viljað hefna fyrir síðasta leik liðanna þar sem SA vann öruggan sigur.
Leikurinn byrjaði vel og hressilega og skiptust liðin á að sækja. Um miðjan fyrsta leikhluta komust SA menn 0-1 yfir með marki þegar þeir voru einum fleiri. Ekki tók Hafnfirðinga langa stund að jafna stöðuna í 1-1. Loka mínútur leikhlutans voru fjörugar og voru SA menn duglegir að lenda í boxinu.
Fimmti gírinn
SFH byrjuðu annan leikhlutann 5 á 3 þar sem tveir leikmenn SA voru að klára dóma úr fyrsta leikhlutanum. SA menn stóðu af sér sókn Hafnfirðinga. SA kom stöðunni svo í 1-2 með marki manni fleiri, eins og fyrra mark SA. Þegar 11 mínútur voru liðnar var komið að Hafnfirðingum. Segja má að þeir hafi sett í fimmta gír og allt í botn. Á rúmum fimm mínútum skoruðu Hafnfirðingarnir 4 mörk og komust 5-2 yfir. SA menn ákváðu að svara og skipta um markmann og tóku Róbert Steingrímsson út af og settu Tyler Szturm inn á. Hafnfirðingar voru þó ekki búnir og með aðeins 1 sekúndu eftir í leikhlutanum bættu þeir sjötta marki sínu við. Stóð því staðan 6-2 fyrir SFH í lok annars leikhlutans.
Síðasti leikhlutinn einkenndist helst af refsingum. Þremur mínútum fyrir leikslok skoruðu Hafnfirðingar sjöunda markið sitt og mátti sjá að Norðanmenn voru orðnir andlausir. 7-2 loka úrslit fyrri viðureignar SFH og SA. Seinni leikur verður á morgun (sunnudag) kl. 16:45. Spennandi verður að sjá hvort að Hafnfirðingar haldi áfram að refsa fyrir fyrsta leik liðanna eða hvort Akureyingarnir komi bandbrjálaðir til leiks.
Mörk og stoðsendingar
SFH: Björn Sigurðarson (2,0), Jerzy Gus (1,3), Alex Kotásek (1,1), Pétur Maack (1,1), Edgar Protcenko (1,0), Heiðar Kristveigarson (0,1), Steinar Veigarsson (0,1), Ævar Arngrímsson (0,1).
SA: Birkir Einisson (1,0), Jóhann Leifsson (1,0), Andri Mikaelsson (0,1), Gunnar Arason (0,1), Marek Vybostok (0,1).
Markmenn
Radek Haas, SFH, varði 29 af 31 skoti eða 93,5% varlsa. Róbert Steingrímsson, SA, varði 21 af 26 skotum eða 80,7% varsla. Tyler Szturm, SA, varði 11 af 13 skotuð eða 84,6% varsla.