SA svara fyrir sig
SA svara fyrir sig
Dómarar leik gærdagsins þurftu heldur betur að vinna fyrir kaupi sínu. Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Hafnarfjarðar áttust við í seinni viðureign þeirra um helgina. SFH unnu örugglega fyrri leik liðanna sem sat greinilega í heimamönnum. SA menn gerðu einnig breytingar á leikmannahópi sínum sem reyndust mikilvægar. Edgar Protcenko, lykilleikmaður SFH, var ekki með í leiknum eftir að hafa spilað góðan leik daginn áður.
Aðeins 11 mínútur voru liðnar af leiknum þegar slagsmál brutust út á milli leikmanna. Útkoman var sú að SFH spiluðu manni fleiri og voru ekki lengi að finna taktinn frá fyrri leiknum og komust 0-1 yfir. Stuttu seinna voru SA menn manni fleiri og svöruðu í sömu mynt og staðan orðin 1-1. Rétt undir lok leikhlutans kom Unnar Rúnarsson, sem var ekki í leikmannahópi úr fyrri leik, SA mönnum 2-1 yfir og svo stóð í lok fyrsta leikhlutans.
Í öðrum leikhluta var allt í járnum. Brot gegn broti. Sókn og vörn. Unnar Rúnarsson bætti við öðru marki sínu fyrir hönd SA og SA menn komnir með tveggja marka forskot, 3-1. Fyrir utan lítilsháttar handalögmál undir lok leikhlutans var hann annars tíðinda lítill.
Slagsmál og mörk
Fjórða mark SA kom rétt áður en þriðji leikhlutinn var hálfnaður en stuttu seinna var komið að fyrstu útilokun leiksins. Leikmaður SFH fékk þar útilokun og brutust út slagsmál í kjölfarið. Dómari sem reyndi að stoppa slagsmálin fór niður á svellið með leikmönnunum. Útkoman var að SFH spilaði manni fleiri fjóra á þrjá. Þeir voru ekki lengi að laga stöðuna í 4-2 og lifnaði yfir gestunum úr Hafnarfirðinum. Ekki voru SA menn lengi að koma sér í 5-2 þegar þeir fengu tækifæri manni fleiri þegar rúmar 6 mínútur voru eftir af leiknum. Spennan var mikil og rétt undir lokin sauð aftur upp úr sem varð til þess að önnur útilokun leit dagsins ljós, í þetta sinn á leikmann SA. Boxin voru þétt setin þar til leiknum lauk.
Úrslit leiksins 5-2 fyrir SA mönnum. Gríðarlega skemmtilegur leikur þar sem nóg var að gerast. Liðin skiptast því á stigum eftir helgina. Liðin mætast aftur í janúar með sama fyrirkomulagi.
Mörk og stoðsendingar
SA: Jóhann Leifsson (2,0), Unnar Rúnarsson (2,0), Marek Vybostok (1,0), Orri Blöndal (0,2), Andri Mikaelsson (0,1), Atli Sveinsson (0,1), Gunnar Arason (0,1), Hafþór Sigrúnarson (0,1), Pétur Sigurðsson (0,1)
SFH: Alex Kotásek (1,0), Steinar Veigarsson (1,0), Björn Sigurðarson (0,2), Jerzy Gus (0,1)