Yfirvinna hjá heilbrigðisteymi

Yfirvinna hjá heilbrigðisteymi

Andri Mikaelsson, SA, og Pétur Egilsson, Fjölni, berjast um pökkinn. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Skautafélag Akureyrar og Fjölnir mættust í gærkvöldi fyrir norðan. SA hafði betur gegn Fjölni 3-1 en nóg var um að vera. Einna helst var að 3 leikmenn Fjölnis fóru meiddir útaf yfir leikinn og snéru ekki aftur inn á. Það er öruggt að segja að þessara leikmanna var saknað, enda erfitt að missa hálfa línu úr leik.

Fyrsta lotan var rúmlega hálfnuð þegar Unnar Rúnarsson, SA, kom heimamönnum aðeins 6 sekúndum eftir að Fjölnismanni var vísað í boxið. Fjölnir jafnaði leikinn snemma í annarri lotu með marki frá Viktor Mojzyszek. Þremur mínútum seinna voru heimamenn komnir aftur yfir eftir mark frá Atla Sveinssyni. Fjallað verður um það neðar í fréttinni. Marek Vybostok skoraði svo 3 mark SA þegar 5 mínútur voru eftir af annarri lotunni. Ekki urðu mörkin fleiri og var þriðja lotan tiltölulega tíðindalítil. Fjölnismenn sóttu vel í lokinn og en allt kom fyrir ekki og 3-1 loka niðurstaðan.

Fjölnismenn fagna marki Viktor Mojzyszek. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Meiðsli eftir meiðsli

Fyrsti leikmaðurinn meiddist eftir aðeins nokkrar sekúndur. Leikmaður SA og leikmaður Fjölnis lentu saman með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi fékk mikið höfuðhögg. Stöðva þurfti leikinn og var leikmanninum aðstoðað út af þar sem hann fékk aðhlynningu hjá óháðu heilbrigðisteymi sem staðsett er í Skautahöllinni á Akureyri. Annar leikmaður Fjölnis til þess að meiðast fékk leikmann SA í hliðina á sér, sem í sjálfu sér var ekki hættulegt, en leikmaður Fjölnis lenti illa með öxlina í hliðar veggnum. Hljóðið sem fylgdi gaf til kynna að leikmaðurinn hefði meitt sig og skautaði viðkomandi beint út af og kallað var aftur á heilbrigðisteymið. Þriðji leikmaður Fjölnis til þess að meiðast gerðist rétt fyrir 2 mark SA. Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, gerðist brotlegur þegar hann sló kylfu sinni aftan í hnésbót leikmanns Fjölnis og opnaði þar með vörn Fjölnis fyrir Atla Sveinssyni, SA, sem skoraði. Andri hlaut 5 mínútna dóm í kjölfarið og leikmaður Fjölnis fékk aðhlynningu og kom ekki aftur til sögu.

Barátta við mark SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Mörk og stoðsendingar

SA: Atli Sveinsson (1,1), Marek Vybostok (1,0), Unnar Rúnarsson (1,0), Matthías Stefánsson (0,1) Ólafur Björgvinsson (0,1),  Róbert Steingrímsson (0,1), Uni Blöndal (0,1).

Fjölnir: Viktor Mojzyszek (1,0), Freyr Waage (0,1).

Markmenn

Róbert Steingrímsson, SA, varði 20 af 21 skoti (95,2%) og Nikita Montvids, Fjölni, 27 af 30 skotum (90%).