Vítakeppni í fyrsta leik ársins
Vítakeppni í fyrsta leik ársins
Fyrsti leikur ársins var á milli SA og Fjölnis í Toppdeild-kvenna og má segja að leikmenn beggja liða hafi þurft smá stund til að komast aftur í gírinn.
Fyrstu tvær loturnar voru mjög rólegar. SA hafði skotið 8 sinnum á mark Fjölnis og Fjölnir 7 sinnum á mark SA. Þegar þriðja lotan hófst voru leikmenn komnir aftur í keppnis gírinn. Fjölnir byrjaði að skora með marki frá fyrirliðanum, Kolbrúnu Garðarsdóttur, þegar tæpar 5 minútur voru liðnar af leikhlutanum. Markið kveikt eld undir SA sem hóf að sækja gríðarlega grimmt. Nokkrum mínútum seinna var komið að hinum fyrirliðanum að skora. Amanda Bjarnadóttir jafnaði metin fyrir SA í 1-1.
Liðin skiptust á að sækja en SA var aðeins meira í sókn síðustu mínútur leiksins. Fjölnir lenti í því að missa tvo af lykil leikmönnum í boxið með stuttu millibili, rétt áður en að leiktíminn rann út. SA spiluðu tæpa síðustu mínútu leiktímans 5 á 3. Fjölnir gerðu gríðarlega vel í að verjast og haldið var í framlengingu.
Refsitími leikmanna Fjölnis var ekki útrunninn og því voru SA tveimur fleiri góðan tíma af 5 mínútna framlengingunni. Fjölnir gerði vel aftur og stóð af sér linnulausa sókn SA og því var farið í vítakeppni.
Anna Ágústsdóttir skoraði úr fyrsta vítinu fyrir SA og Hilma Bergsdóttir jafnaði fyrir Fjölni. Það reyndist vera síðasta mark Fjölnis þar sem Shawlee Gaudreault varði frá Teresu Snorradóttur, Sofíu Bjarnadóttur og Sigrúnu Árnadóttur. Kolbrún Björnsdóttir og Silvía Björgvinsdóttir skoruðu báðar fyrir SA og endaði því vítakeppnin 3-1. Lokatölur leiksins 2-1 SA í vil.
Gríðarlega spennandi leikur til þess að byrja árið og má búast við góðri keppni í Toppdeild kvenna árið 2025!