Stál í stál
Stál í stál
Eins óspennandi og síðasti leikur SR var varð þessi leikur strax spennandi frá fyrstu mínútu. SRingar mættu heitir eftir síðasta leik og opnuðu markareikninginn snemma. Norðanmenn voru ekki lengi að svara og staðan jöfn lengi vel. SA náði forskoti rétt fyrir lok fyrsta leikhlutans.
Aftur mættu SRingar brjálaðir til leiks og jöfnuðu í 2-2. SA tók forskotið aftur stuttu seinna en þá svaraði SR strax aftur og jafnt stóð 3-3. SR náði aftur forystu fyrir lok lotunnar og leiddi 3-4.
Þá var komið að SA að mæta brjálaðir eftir leikhlé og jafna í 4-4. SA bætir öðru við stuttu seinna og kemur SA 5-4 yfir.
Allt sauð upp úr rétt fyrir leikslok
Ljótt atvik átti sér stað þegar rúmar 8 mínútur voru eftir af leiknum. Sölvi Atlason, SR, ýtir aftan í Jóhann Leifsson, SA, með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi lendir með andlitið í veggnum. Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, er upp við atvikið og ákveður að vera ekkert að bíða eftir dómurunum og tekur málið í sínar eigin hendur, bókstaflega. Allt sauð upp úr og myndaðist hrúga af leikmönnum beggja liða á meðan reynt var að hlúa að Jóhanni. Leikurinn var stöðvaður í dágóða stund eftir á. Í heildina fengu 4 leikmenn að dúsa í boxinu og Sölvi og Andri fengu útilokanir fyrir brot sín.
Stuttu eftir að suðan var komin niður bætti SA við forskot sitt, 6-4 þegar Pétur Sigurðsson fullkomnaði þrennu sína.
SR tóku leikhlé, tóku Jóhann Ragnarsson, markmann SR, útaf og hófu sókn 6 á móti 5. Leikhléið skilaði sér því SR lagaði stöðuna í 6-5 með rúmar 2 mínútur eftir. Spennan var áþreifanleg síðustu mínútuna en allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn 6-5, annað skiptið í röð þar sem liðin mætast.
Mörk SA: Pétur Sigurðsson 3, Róbert Hafberg 2, Jóhann Leifsson 1.
Mörk SR: Kári Arnarsson 2, Gunnlaugur Þorsteinsson 1, Sölvi Atlason 1, Petr Stepanek 1.
Gríðarlega spennandi og skemmtilegur leikur. Upptöku af leiknum má finna á Youtube-rás ÍHÍ. (Langa) leikskýrslu má finna með því að smella hér.