HM kvenna í Mexíkó – Síðasti leikurinn

HM kvenna í Mexíkó – Síðasti leikurinn

OLIO9015

Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson.

Loka leikur Íslands í Mexíkó fór fram í nótt gegn Kínverska Taípei (Taiwan). Bæði liðin áttu eftir að sigra leik á mótinu og því æsispennandi viðureign.

 

Fyrsti leikhlutinn

Íslensku stelpurnar byrja leikinn á fullu gasi. Þær lenda einum færri þegar tæpar 2 mínútur eru liðnar af leiknum. Þær standa vörnina gríðarlega vel, eins og þær hafa gert á öllu mótinu þegar þær lenda einum færri. Tæpar 6 mínútur eru búnar af leiknum þegar fyrsta markið kemur. Íslensku stelpurnar sækja í svæði Taípei en bakka. Taípei fer í línu skiptingu og þá keyra þær íslensku snöggt í glufuna sem myndast. #6 Brynhildur Hjaltested skautar hægra megin að markinu sendir pökkinn á milli varnarmanna Taípei á #23 Sunnu Björgvinsdóttur sem skorar. 1-0 fyrir Íslandi.

#23 Sunna Björgvinsdóttir fagnar marki. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson.

Næstu 13 mínútur eru fram og til baka. Bæði lið fá tækifæri einum fleiri en tekst ekki að nýta þau. Tæpar 2 mínútur eru eftir af leikhlutanum þegar Taípei jafnar leikinn. #4 Yun-Yun Sha er fyrir miðju vallar við bláulínuna, Yun-Yun sendir á #11 Yi-Ni Lin sem er beint fyrir framan mark Íslands og skorar. Staðan 1-1. 

Allt leit út fyrir að 1-1 yrði staðan eftir fyrsta leikhlutann. Uppkast er á svæði Íslands og ratar pökkurinn alla leið yfir á svæði Taípei. Leikmaður Taípei ætlar að stilla upp í sókn fyrir aftan mark Taípei en íslensku stelpurnar pressa þrjár á hana. Hún reynir að losa sig við pökkinn í flýti en sendir beint á #19 Berglindi Leifsdóttur sem er ein á móti markmanni Taípei og skorar. Staðan 2-1 fyrir Íslandi eftir fyrsta leikhluta. 

 

Annar leikhluti

Annar leikhlutinn var heldur rólegri. Aðeins eitt mark var skorað í leikhlutanum. Sex og hálf mínúta er liðin þegar Taípei kemst inn í sendingu Íslands bruna af stað inn á svæði Íslands. Íslensku stelpurnar pressa #10 Yun-Chu Huang niður í vinstra hornið en við það er #16 Chih-Chen Hsieh laus fyrir framan markið. Yun-Chu sendir fyrir markið og Chih-Chen skorar. Leikurinn orðinn jafn 2-2.

#25 Birta Helgudóttir ver í marki Íslands. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson.

Þriðji leikhluti

Síðasti leikhlutinn var heldur fjörugri en sá síðasti. Það mætti segja að bæði liðin upplifðu pressu til þess að vinna sinn fyrsta leik á mótinu. Mikill hraði var í leikhlutanum og þó nokkuð mikið af brotum. Bæði lið fengu sénsa manni fleiri til þess að komast yfir en ekki gekk það. Tæpar 6 mínútur eru eftir af leiknum þegar #16 Ragnhildur Kjartansdóttir fær tvöfaldan dóm fyrir brot þar sem að leikmaður Taípei endar með höfuðið í vegg. Fyrir vikið er fær Ísland 5 mínútna dóm og Ragnhildur game misconduct dóm. Stelpurnar verjast vel í allar 5 mínúturnar. Leikflautan gall og framlenging niðurstaðan.

 

Framlenging og vítakeppni

Ísland byrjar manni færri á vellinum þar sem #12 Teresa Snorradóttir fékk dóm undir lok venjulegs leiktíma. Ekkert mark kom í famlengingunni og því var gripið til vítakeppni. 

Fyrstu skot beggja liða eru varin. Annað víti Taípei er tekið af #10 Yun-Chu Huang. Yun-Chu tekur sveig til vinstri og sækir svo beint á markið. Yun-Chu er komin alveg út við hægri stöng marksins þegar hún skýtur pekkinum yfir öxl Birtu Helgudóttur og kemur Taípei yfir 2-3.

#10 Yun-Chu Huang skorar sigurmark Kínverska Taípei. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson.

Ekki uðru mörkin fleiri í vítakeppninni. 

Úrslit 2-3 tap gegn Kínverska Taípei.

Svekkjandi úrslit eftir mjög svo góðan leik hjá stelpunum okkar. Leikskýrslu má finna hér og upptöku af leiknum með því að smella hér