„Mér fannst við stjórna leiknum“ | Hertz-deild karla

„Mér fannst við stjórna leiknum“ | Hertz-deild karla

Petr Stepanek var atkvæðamikill fyrir SR í kvöld með tvö mörk og eina stoðsendingu. Mynd úr fyrri viðureign liðanna. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Fjölnir tók á móti SR í Hertz-deild karla í Egilshöll í kvöld. SR byrjaði fyrsta leikhluta af krafti en það var þó Fjölnir sem braut ísinn og skoraði eina mark lotunnar. SR-ingar áttu mörg góð færi en markvörður Fjölnis átti frábæran leikhluta og tryggði forystu heimamanna. 1-0 eftir fyrstu lotu.

Falur sækir að marki SR í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Meira fjör færðist í leikinn í öðrum leikhluta er menn tókust á inn á ísnum. Hitnaði ágætlega í kolunum en dómurum leiksins tókst að halda stjórn. SR tók völdin og sótti stíft sem skilaði þeim fjórum mörkum í lotunni. 1-4 eftir annan leikhluta.

Leikurinn jafnaðist út í þriðja og skiptust liðin á að sækja. SR jók forystuna í byrjun en Fjölnir minnkaði muninn í lokin og þar við sat 2-5 sigur fyrir SR sem fer með þrjú mikilvæg stig í Laugardalinn.

Þjálfarar liðanna, Emil og Milos, á bekknum í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Milos, þjálfari SR var ánægður með stigin þrjú en hafði þetta um leikinn að segja: „ Við fundum okkur ekki alveg í fyrsta leikhluta, okkur skorti fókus og þeir ná að skora. Mér fannst við samt stjórna leiknum og spila vel en áttum erfitt með að klára færin og koma pekkinum í markið. Styrmir átti líka góðan leik í markinu hjá Fjölni.“

„Nú förum við að undirbúa seinni helming tímabilsins, ætlum að nýta vel leikjapásuna sem er framundan því við þurfum að vinna í ýmsum atriðum. Við höfum titil að verja í vor“ bætir Milos við að lokum.

Emil var ánægður með margt í leik sinna manna í kvöld að undanskyldum öðrum leikhluta sem hann vill helst gleyma sem fyrst: „Við spiluðum fyrsta leikhluta eins og lagt var upp með. Í öðrum leikhluta er ég ekki viss hvað við erum að gera, við vorum mjög slakir. Það er erfitt að koma til baka eftir það.“ Emil var þokkalega ánægður með lokaleikhlutann: „Þetta var aðeins betra í þeim þriðja, mér fannst við ná okkur ágætlega á strik en annar leikhluti sat greinilega ennþá í okkur. En við náðum að ýta aðeins frá okkur þá.“

Styrmir varði vel í marki Fjölnis í kvöld: „Ég get alltaf stólað á hann í markinu og er stoltur af hans frammistöðu í kvöld. En við þurfum að læra hvernig við getum betur hjálpað honum, við settum hann stundum í erfiða stöðu sem þvingaði hann til að fara í erfiðar vörslur. Við hefðum getað hjálpað markmanninum okkar betur“ bætir Emil við að lokum.

Samlandarnir Filip (SR) og Martin (Fjölnir) frá Tékklandi takast á í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Mörk Fjölnis:
Martin Svoboda og Liridon Dupljaku

Mörk SR:
Petr Stepanek (2), Ólafur Hrafn, Styrmir Maack og Kári Arnarsson

Hydra kerfið liggur niðri og því ekki hægt að sjá tölfræði leiksins en streymi er hægt að nálgast hér á Youtube rás ÍHÍ.

 

 

Höfundur: