Fjölnir marði sigur í vítakeppni í hnífjöfnum leik | Hertz-deild karla

Fjölnir marði sigur í vítakeppni í hnífjöfnum leik | Hertz-deild karla

Ljósmynd úr fyrri leik liðanna. Ljósmynd: Bjarni Helgason

SA heimsótti Fjölni í Egilshöll í dag og tóku bæði lið stig úr leiknum, Fjölnir tvö og SA eitt.  Leikurinn var einn sá lengsti sem sögur fara af, þetta tímabil hið minnsta, rúmir þrír tímar með framlengingu og vítakeppni en miklar tafir urðu líka í öðrum leikhluta þegar þurfti að leysa úr hrúgu af refsimínútum og fyrir þriðja leikhluta þegar laga þurfti annað markið.

SA-ingar hófu leikinn af miklum krafti. Heimamenn fengu tveggja mínútna refsingu í upphafi leiks sem þeir náðu næstum því að standa af sér en Baltasar Hjálmarsson skoraði fyrsta mark SA þegar fimmti Fjölnismaðurinn var að stíga út úr refsiboxinu. 10 mínútum síðar brutust SA-ingar út úr sínu varnarsvæði manni færri, það virtist fremur meinlaust en einhver misskilngur í vörn Fjölnis varð til þess að Baltasar náði sínu öðru marki þegar hann stóð allt í einu einn fyrir framan markið með pökkinn. Aftur nýttu SA-ingar sér mistök heimamanna þegar pökkurinn rann hægt út úr varnasvæði þeirra og beint í fangið á Unnari Rúnarssyni sem sem var að klára refsingu. Hann náði stjórn á pökknum, skautaði upp ísinn og setti hann í netið. SA-ingar klárlega sterkari í leikhlutanum en Fjölnismenn með nokkra góða spretti en 0-3 undir.

Fjölnir sækir í þriðja leikhluta. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Fjölnir var langt frá því búinn að játa sig sigraðan og mættu af miklum krafti í annan leikhluta. Eftir mistök gestanna í eigin varnarsvæði náði Fjölnir pökknum. Með laglegu spili sín á milli endaði pökkurinn hjá Liridon Dupljaku sem setti hann í netið af stuttu færi. Tæpum þremur mínútum síðar, manni fleiri, setti Martin Svoboda skot framhjá markverði SA og Fjölnir komið aftur inn í leikinn. Mikil refsimínútna-súpa var hrærð upp um miðjan leikhlutann sem tafði leikinn mikið en á tímabili voru heimamenn fimm á þrjá sem ekki tókst að nýta. En fjórir á fjóra náði Fjölnir að jafna leikinn með marki Andra Helgasonar. Fjölnir með frábæra endurkomu og stál í stál fyrir síðasta leikhlutann.

Liridon Dupljaku fagnar öðru marki sínu og fjórða marki Fjölnis. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Í þriðja leikhluta var jafnræði milli liðanna en Jóhann Leifsson kom SA í forystu eftir fjögurra mínútna leik þegar hann var skilinn einn eftir fyrir framan markið. Liridon svaraði um hæl fyrir Fjölni eftir laglega sendingu frá Fal Guðnasyni. Ekki urðu mörkin fleiri og grípa þurfti til framlengingar sem dugði heldur ekki til að skera úr um úrslitin. Í vítakeppninni fóru markverðir liðanna á kostum en ekki tókst að ná fram úrslitum úr fyrstu fimm vítaskotum hvors liðs. Það þurfti fimm í viðbót hvoru megin áður en Róbert Pálssson tryggði Fjölni tvö dýrmæt stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Þarf ekki mikið til að breyta hokkíleik

Gunnar vígalegur á bekknum að brýna sína menn í leikhléi. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Gunnar Guðmundsson, gamalreyndur leikmaður úr Birninum sáluga, er nýtekinn við liði Fjölnis og stýrði því sínum fyrsta deildarleik. Hann var að vonum ánægður með sigurinn í kvöld: „Ég var hrikalega ánægður með strákana. Við erum búnir að vera að breyta aðeins bæði leikskipulaginu og uppröðuninni á liðinu frá því sem verið hefur. Rosalega gaman að sjá það verða að veruleika á móti feiknasterku liði Akureyringa.“

Þetta byrjaði nú ekki vel fyrir ykkur, þrjú núll eftir fyrsta leikhluta en þið sneruð þessu alveg við í þeim næsta: „Já það þarf ekki mikið til að breyta leikjum í hokkí, en mér fannst við fimm á fimm í fyrsta leikhluta spila hörku þéttan leik á móti þeim. Markmiðið var að drepa niður fyrstu línuna þeirra, Jóa Leifs, Haffa og Andra Mikaels. Það virkaði en við fengum klúðursleg tvö mörk á okkur manni fleiri. Fyrsta markið vorum við manni færri og andstæðingarnir eru hörku leikmenn sem geta búið sér til færi til þess að skora.“

Þetta var stór endurkoma í öðrum leikhluta?: „Við héldum okkur við sama planið og héldum haus og unnum aðra períódu þrjú-núll. Þá er þetta núll-núll leikur og bara spurning um hvort liðið er tilbúið að gera meira dirty work og litlu hlutina sem þarf til að vinna. Það hafðist ekki svo við fórum í overtime sem var hnífjafnt líka. Svo endaði þetta í níu eða tíu vítum, ég missti töluna“ bætir Gunnar við og hlær.

Slagur um sæti í úrslitum framundan

Þú varst með fullskipað 22 manna lið í kvöld. Róbert kominn aftur úr meiðslum og nokkrir gamalreyndir reynslubolta búnir að draga fram skautana ekki satt? „Þegar ég tók við þessu vildi ég fá Brynjar Bergmann, Einar Svein Guðnason og Andra Má Helgason aftur og svo kemur Róbert úr meiðslum. Með þessum leikmönnum kemur gríðarleg reynsla inn í liðið og það skilaði sér svo sannarlega í þessum leik. Þeir eru búnir að vera að æfa með okkur og það er samkeppni á æfingum. Ég þurfti að skilja átta stráka eftir sem komust ekki í hópinn núna. Það er eðlileg samkeppni sem ekki hefur tíðkast í íslensku íshokkí hingað til.“

Þetta er eitthvað sem virðist vera komið í öllum þremur klúbbunum, að það komast ekki allir í liðið. „Já þannig á þetta auðvitað að vera og það heldur öllum á tánum. Leikirnir verða betri og levelið hækkar fyrir vikið. Þetta er jákvæð þróun.“

SA eru komnir með níu fingur á sæti í úrslitum, en það er enn galopið hver fylgir þeim: „Já það er það sem við erum að keppast við, þurfum að koma okkur yfir SR. Ég held það séu ekki nógu mörg stig í pottinum til að ná SA-ingum. Þeir eru stungnir af. Okkar markið er að fara inn í hvern leik til að ná í stig. Ef við getum stolið stigum af liði eins og Akureyri styrkir það okkar stöðu í baráttunni.“ bætir Gunnar við að lokum.

Misstu niður skriðþungann úr fyrsta leikhluta

Richard Tahtinen í „rauða hafinu“ í kvöld og leggur á ráðin. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Jamie Dumont þjálfari SA varð frá að hverfa af persónulegum ástæðum og dustaði reynsluboltinn Richard Tahtinen rykið af þjálfaraspjaldinu, sem setið hefur upp á hillu í 10 ár. Hvað fannst honum um leikinn í kvöld? „Við byrjuðum ágætlega en missum svo út lykilleikmenn og þurfum aðeins að skrambla línurnar. Erum ekki alveg nógu skarpir í öðrum leikhluta, gerum nokkur einstaklingsmistök og leyfum þeim of mikið að komast inn í leikinn. Svo voru mikið af refsingum sem er aldrei gott og mikil bið eftir klukkunni. Margir svona þættir sem valda því að tempóið fer niður og við missum svolítið mómentumið.

Nokkrir lykilleikmenn SA urðu eftir fyrir norðan en það vantaði t.d. bæði Orra Blöndal og Ingvar Jónsson í kvöld og svo er Uni Blöndal í leikbanni.

Leikurinn jafnaðist út í þriðja leikhluta ekki satt?: „Við spiluðum ágætlega í þriðja aftur en lendum þá í meiri meiðslum og þurfum aftur að breyta línunum og keyrum á fáum leikmönnum. Í framlengingunni eigum við marga sjénsa, erum eiginlega með pökkinn allan tímann en náum bara ekki að klára. Svo eru vítaskot bara eins og þau eru.“

Það er stundum sagt í hálfkæfingi að SA þurfi varla þjálfara, liðið sé eins og vel smurð vél: „Ég er nú kannski ekki sammála því, það þarf alltaf að stýra þessu. Í gamla daga fóru lið oft suður að spila án þjálfara því þeir voru að sinna svo mörgum hlutverkum. En svona yfir tímabilið þarf einhver að skipuleggja og halda tempó á æfingum og þess vegna mikilvæg að hafa þjálfara. En ég skil hvað er átt við.“

Ekki farnir að hugsa um úrslitin

Hvernig með framhaldið, nú er farið að síga á seinni hlutann á tímabilinu og þið eruð með góða forystu á toppnum, eruð þið búnir að tryggja ykkur í úrslit? „Ég er ekki alveg viss, en það er allavega ekki langt frá því. Ég er auðvitað nýr þjálfari, það er alltaf erfitt að koma á miðju tímabili, sérstaklega þegar gekk svona vel fyrir áramót. Ég vil kannski ekki breyta neitt svakalega miklu, ég á eftir að kynnast yngri kynslóðinni og komast svolítið aftur inn í þjálfun. Við höfum verið að glíma við að það hefur vantað lykilmenn í hópinn og svo hafa verið landsliðferðir svo við höfum ekki náð svona „consistency“ í æfingum. En við þurfum að æfa lykilatriði eins og áhrifaríkari sóknarleik og skora. Þjappa aðeins betur varnarleikinn. Svona beisik „bread and butter“ vinna með liðið. Við erum kannski ekkert farnir að undirbúa okkur fyrir úrslitin ennþá en við erum að byggja upp okkar identity aftur.“

„Fyrir mig sem þjálfaði síðast fyrir 10 árum, þá er gaman að sjá nýja kynslóð. Þeir skilja leikinn allt öðruvísi en leikmenn í gamla daga. Ég hlakka bara til.“ bætir Richar við að lokum.

Næsti leikur í Hertz-deild karla er á laugardaginn eftir viku er sömu lið mætast en núna á heimavelli Akureyringa.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Fjölnir fagnar tveimur mikilvægum stigum eftir langan leik í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Höfundur: