SR tryggði sér sæti í úrslitum | Hertz-deild karla

SR tryggði sér sæti í úrslitum | Hertz-deild karla

Axel Orongan var með tvö mörk og stoðsendingu. Ljósmynd Hafsteins Snæs Þorsteinssonar úr leik liðanna fyrr í vetur.

SR tók á móti Fjölni í jöfnum og fjörugum 12 marka leik í gærkvöldi. SR hafði 8-4 sigur og tryggði sér með því sæti í úrslitum Hertz-deildar karla gegn SA. Enn eru þó nokkrir leikir eftir af deildinni og mætast SR og SA næsta laugardag í upphitun fyrir úrslitin.

Petr Stepanek, sem hefur verið öflugur fyrir SR í vetur, opnaði markareikning heimamanna á áttundu mínútu manni fleiri. Landi hans og vinur, Filip Krzak, kom SR svo í 2-0 á 16 mínútu. Kolbeinn Sveinbjarnarson svaraði fyrir Fjölni þremur mínútum síðar en Jonathan Otouma skoraði síðasta mark leikhlutans stuttu síðar og heimamenn í góðri 3-1 stöðu.

Reynsluboltinn Emil Alengård minnkaði muninn í 3-2 í byrjun annars leikhluta og Tékkinn Martin Simanek jafnaði svo leikinn stuttu síðar með marki í yfirtölu. Leikurinn hálfnaður, allt í járnum og spennan í hámarki. SR var ekki á því að halda spennu í þessu og náði aftur forystunni rúmri mínútu síðar með marki fyrirliðans Kára Arnarssonar. Sölvi Atlason jók forystuna í 5-3 þegar 7 mínútur lifðu af leikhlutanum en Andri Helgason minnkaði muninn fyrir Fjölni nokkrum mínútum síðar og staðan 5-4 fyrir síðustu 20 mínúturnar.

Oft er tekist vel á inn á ísnum.  Ljósmynd Hafsteins Snæs Þorsteinssonar úr leik liðanna fyrr í vetur.

SR byrjaði leikhlutann með marki Bjarka Jóhannessonar í yfirtölu. Axel Orogan bætti í forystuna þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum og vonir um sæti í úrslitum orðin lítil fyrir gestina. Fjölnir gafst þó ekki upp og manni fleiri tóku þeir markvörðinn út af og freistuðu þessu að snúa leiknum sér í hag með sex útileikmönnum gegn fjórum. SR stóðst pressuna og Axel bætti við sínu öðru marki í tómt net Fjölnis.

Mín stig ekki aðalatriðið

Petr Stepanek, var með mark og þrjár stoðsendingar fyrir SR í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason.

Tékkneski risinn rólegi Petr Stepanek hefur verið mjög drjúgur fyrir SR í vetur, var með mark og þrjár stoðsendingar í kvöld. Hvað hafði hann að segja um leikinn? „Þetta var mjög mikilvægur leikur fyrir okkur, sem við þurftum að sigra, því við höfðum ekki tryggt okkur sæti í úrslitum. Við erum mjög ánægðir með sigurinn og allir strákarnir spiluðu mjög vel í kvöld.“

Þú hefur verið öflugur í vetur, líklega með 2-3 stig að meðaltali í leik? „Ég hef ekki verið nógu ánægður með mína frammistöðu í síðustu tveimur leikjum en vonandi verð ég betri í úrslitakeppninni. En mín stig eru ekki aðalatriðið hér. Ég vona að allt liðið geti fagnað titlinum saman í lok tímabilsins.“

Hápunktur tímabilsins

Það  eru tveir leikir eftir í deildinni, er liðið klárt í úrslitin? „Já ég held við séum klárir í slaginn, það er leikur á laugardaginn gegn Akureyri og svo tveggja vikna hvíld fyrir síðasta deildarleikinn gegn Fjölni. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir úrslitin því þetta er hápunktur tímabilsins. Vonandi sigrum við og höldum bikarnum í Reykjavík.“

Byggja ofan á þetta tímabil

Róbert Pálsson, fyrirliði Fjölnis. Ljósmynd af Fjolnir.is

Róbert Pálsson, varnarmaður, fyrirliði og einn reyndasti leikmaður Fjölnis var tekinn tali. Hvað fannst honum um leikinn í kvöld? „Já við vorum svona pínu á hælunum í byrjun og vorum að elta eiginlega allan leikinn fannst mér. Þeir voru alltaf 1-2 mörkum yfir þangað til að við fórum að reyna að sækja eitthvað meira og þá varð út um leikinn. Við reyndum en þeir nýttu sér mistök okkar.“

Þessi leikur gerði út um baráttuna um sæti í úrslitum en það eru samt tveir leikir eftir hjá ykkur í deildinni? „Jú það er bara að byggja ofan á þetta sem við höfum verið að gera eftir áramót. Mér finnst mikill munur á liðinu og við ætlum að byggja ofan á þetta og koma sterkari inn í næsta tímabil.“

Sneru við blaðinu eftir áramót

Já liðið var áberandi sterkara og þetta var mikið jafnari deild eftir áramót, allir að stela stigum af öllum. „Já við þurfum að fara í naflaskoðun ef við ætluðum að gera eitthvað þetta tímabil. Þetta eru það fáir leikir og þú mátt ekki gera mörg mistök, þá er þetta bara búið fyrir þig. Maður verður að líta svolítið inn á við og snúa blaðinu við þegar gengið var svona eins og það var fyrir áramót.“

Þetta er líklegasta jafnasta deildin í mörg ár? „Já sammála því, sérstaklega eftir áramót, við náðum stela einhverjum punktum og reyna klóra aðeins í þá.“

Þið stefnið á að koma af krafti inn í næsta tímabil og hafa þetta enn jafnara? „Já ég vona það að menn séu bara með blóð á tönnunum og vilji bara gera enn betur, annars ættum við ekki að vera í þessu.“

„Til hamingju SR og vonandi verður úrslitakeppnin bara góð“ bætir Róbert við að lokum.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Eins og áður sagði er næsti leikur í Hertz-deild karla á laugardag þegar SR tekur á móti SA í Laugardalnum í upphitun fyrir úrslitin.

Höfundur: