Markaregn í Egilshöll | Herzt-deild karla

Markaregn í Egilshöll | Herzt-deild karla

Úr markaleiknum í Egilshöll. Ljósmynd Atli Freyr Ólafsson

Fjölnir tók á móti SR í Egilshöll í leik sem engu máli skipti formlega séð enda úrslitin í deildinni ráðin fyrir nokkru og ljóst að SA og SR bítast um titilinn í ár. Leikurinn var þrátt fyrir það hraður og skemmtilegur.

Róleg byrjun

SR var ráðandi upphafi fyrsta leikhluta en tókst þó ekki að koma pökknum fram hjá Þóri í marki heimamanna. Fjölnir sótti í sig veðrið þegar á leið og braut ísinn manni fleiri með fallegu marki varnarmannsins Martins Simanek. 1-0 fyrir Fjölni eftir 20 mínútna leik.

Leikhluti markvarðanna

SR var ekki að tvínóna við hlutina og jafnaði með marki Petr Stepanek í fyrstu sókn annars leikhluta. SR réði lögum og lofum í þessum leikhluta en Fjölnir og Þórir markvörður ekki á því að hleypa þeim framúr. Fjölnir átti nokkur góð færi en að sama skapi var varist vel þeim megin og Atli markvörður ekki í minna stuði. Staðan 1-1 fyrir síðasta leiklhluta.

7 marka leikhluti

Fjölnir tók yfir í byrjun þriðja leikhluta, komst í 2-1 á þriðju mínútu er Martin bætti við öðru marki frá bláu línunni. Aftur var Fjölnir á ferðinni 90 sekúndum síðar með marki Viktor Svavarssonar og svo enn aftur 90 sekúndum þegar Falur Guðnason jók forystu heimamanna í 4-1. Þrjú mörk á þremur mínútum og heimamenn komnir í kjörstöðu.

Mörkunum hélt áfram að rigna er gestirnir svöruðu fyrir sig rúmri mínútu síðar og minnkuðu muninn í 4-2 með marki Filip Krzak. Markaveislan var ekki búin því Axel Orongan minnkaði muninn í 4-3 á 11. mínútu og aftur orðinn jafn leikur. Eftir varnarmistök hjá SR fékk Hilmar Sverrisson pökkinn beint fyrir framan markið og afgreiddi hann örugglega í netið. Axel svaraði á 15. mínútu með sínu öðru marki. SR tók Atla markvörð út af er tvær og hálf mínúta lifðu af leiknum og bættu við útileikmann til að þyngja sóknina og freista þess að jafna leikinn. En allt kom fyrir ekki og Fjölnir sigldi sigrinum í land í þessum síðasta leik tímabilsins.

Lokastaðan í Hertz-deild karla 
Skautafélag Akureyrar með 64 stig
Skautafélag Reykjavíkur með 45 stig
Fjölnir með 35 stig

Stigahæstu leikmenn
Petr Stepanek SR – 37 stig (18 mörk og 19 stoð)
Jóhann Leifsson SA – 34 stig (9 mörk og 34 stoð)
Filip Krzak SR- 28 stig (7 mörk og 21 stoð)
Uni Sigurðarson SA – 25 stig (14 mörk og 11 stoð)
Kári Arnarsson SR – 23 stig (11 mörk og 12 stoð)

Stigahæstu varnarmenn
Filip Krzak SR – 28 stig (7 mörk og 21 stoð)
Orri Blöndal SA- 14 stig (2 mörk og 12 stoð)
Róbert Hafberg SA – 10 stig (8 mörk og 2 stoð)
Martin Simanek FJÖ – 9 stig (7 mörk og 2 stoð)
Atli Sveinsson SA – 9 stig (0 mörk og 9 stoð)

Markakóngur tímabilsins er Petr Stepanek með 18 mörk en stoðsendingakóngur Jóhann Leifsson með 25 stoðsendingar.

Markverðir
Jóhann Ragnarsson SR 90.29%
Jakob Jóhannesson SA 89.22%
Róbert Steingrímsson SA 87.07%

Úrslitakeppnin milli SA og SR hefst á þriðjudaginn eftir viku 19. mars á Akureyri. Við hvetjum allt íshokkíáhugafólk til að fylla hallirnar í þessari rimmu.

Höfundur: